„Hann er frábrugðinn okkur“

Scottie Scheffler á fundinum í gær.
Scottie Scheffler á fundinum í gær. AFP/Mike Ehrmann

Ekki einungis íþróttaáhugafólk er spennt fyrir endurkomu Tigers Woods á golfvöllinn heldur einnig keppinautarnir. Bandaríski kylfingurinn Scottie Scheffler dró upp áhugaverða mynd á blaðamannafundi í gær. 

Hero World Golf Challenge-mótið hefst á Bahama-eyjum í dag en mótið er hluti af PGA-mótaröðinni. Tiger Woods er mættur til leiks eftir langt hlé og sagðist á blaðamannafundi vera góður í fætinum eftir vel heppnaða aðgerð á árinu. Tiger hefur þurft að leggja á sig mikla vinnu til að geta gengið um golfvellina á nýjan leik eftir alvarlegt bílslys í febrúar árið 2021 en þá munaði litlu að aflima þyrfti Tiger samkvæmt læknum. 

Tiger Woods er næst sigursælasti kylfingur sögunnar á risamótum hjá körlunum á eftir Jack Nicklaus. Scottie Scheffler viðurkenndi á blaðamannafundi í gær að Tiger væri á öðrum stalli en bestu kylfingar heims um þessar mundir.

„Ég elska að horfa yfir æfingasvæðið og sjá hann slá bolta og heyra hljóðið sem því fylgir. Hann er frábrugðinn okkur hinum,“ sagði Scheffler og átti þar við þá getu sem býr í Tiger á golfvellinum. 

Scheffler bætti því við að ómetanlegt sé fyrir PGA-mótaröðina og aðra kylfinga að Tiger sé enn á meðal keppenda. Tiger þurfi ekki á því að halda að keppa og gæti auðveldlega sest í helgan stein en það sé hvetjandi að fylgjast með honum berjast fyrir því að spila áfram meðal þeirra bestu. 

Létt er yfir Tiger Woods þessa dagana og hann virðist …
Létt er yfir Tiger Woods þessa dagana og hann virðist bjartsýnn eftir vel heppnaða aðgerð. AFP/Mike Ehrmann

Scheffler er enginn aukvisi í íþróttinni og hefur unnið sex sinnum á PGA-mótaröðinni. Scheffler sigraði á Masters árið 2022 og hefur hafnað í öðru sæti á tveimur öðrum risamótum þótt hann sé einungis 27 ára. 

Masters-mótið, fyrsta risamótið á ári hverju, fer fram í apríl. Heilsist Tiger vel má búast við því að hann verði þar á meðal keppenda en hann er með keppnisrétt á tveimur stærstu mótunum: Masters og The Open á meðan hann kærir sig um en Tiger verður 48 ára í lok árs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert