Ragnhildur með forystu á úrtökumótinu

Ragnhildur Kristinsdóttir fagnaði sigri á Íslandsmótinu í ágúst.
Ragnhildur Kristinsdóttir fagnaði sigri á Íslandsmótinu í ágúst. mbl.is/Óttar Geirsson

Ragnhildur Kristinsdóttir lék frábærlega á fyrsta hring úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina 2024 í Marrakech í Marokkó, en LET er efst í styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

Leiknir eru þrír 18 holu hringir á þremur keppnisdögum og 1. stigið hófst í dag þar sem kylfingarnir keppast um laus sæti á lokaúrtökumótinu sem fer fram í Marokkó um næstu helgi.

Ragnhildur lék á 66 höggum í dag og var 6 höggum undir pari á hringnum. Hún er því þriggja högga forskot í fyrsta sæti eftir fyrsta hring.

Byrjaði vel og hélt því áfram

Ragnhildur byrjaði leik á tíundu holu vallarins og byrjaði vel þegar hún náði þremur fuglum í röð á holum 11 til 13, hún gerði fá mistök í dag og sigldi í gegnum völlinn með hvern fugl á fætur öðrum. Í viðtali við LET eftir hringinn í dag var Ragnhildur ánægð með frammistöðuna.

„Mér gekk vel með löngu skotin og náði að hitta nálægt holunni, ég var einnig góð með fleygjárnin og kom mér oft í góða stöðu til þess að klára holurnar undir pari. Ég held að þessi braut sé mér hentug.“

Ragnhildur er nýlega búin að færa sig yfir í atvinnumennskuna í golfi en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi og segir hún að hún hafi bætt sig mjög milli ára. 

Guðrún er í sjöunda sæti

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Lóa Dista Jóhannsson hófu einnig leik í morgun á öðru úrtökumóti en 221 leikmaður er skráður til leiks á þremur. Guðrún lék mjög vel á sínu móti og er í sjöunda sæti á 69 höggum, þremur undir pari, en Lóa náði sér ekki á strik og lék á 80 höggum, átta yfir pari.

Niðurskurðurinn fer fram eftir fjórða keppnisdaginn á lokaúrtökumótinu og 20 efstu fá keppnisrétt á LET-mótaröðina en næstu 30 sæti eftir það fá takmarkaðan keppnisrétt á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert