Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék frábærlega á þriðja og síðasta hringnum á fyrsta stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina í golfi í Marrakech í Marokkó í dag.
Guðrún var í 39. sæti eftir tvo hringi, í kjölfarið á slæmum öðrum hring í gær þar sem hún lék á 78 höggum, sex yfir pari vallarins, og var þá samanlagt á þremur höggum yfir pari. Um það bil 25-30 efstu vinna sér sæti á lokaúrtökumótinu sem hefst á laugardaginn.
En í dag náði Guðrún glæsilegum hring, lék á 66 höggum, sex undir pari vallarins. Hún er sem stendur í 15. sætinu ásamt fleiri kylfingum og lauk keppni á samtals þremur höggum undir pari.
Fjölmargir eiga hins vegar eftir að ljúka keppni í dag þannig að óvíst er ennþá hvort þessi árangur nægi Guðrúnu til að komast áfram á lokamótið. Sem stendur er niðurskurðarlínan hinsvegar við par vallarins þannig að horfurnar eru nokkuð góðar.