Ég get enn unnið mót

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP/Mike Ehrmann

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods kveðst þess fullviss að hann geti enn unnið mót á PGA-mótaröðinni þrátt fyrir að hafa átt í miklum meiðslavandræðum undanfarin ár.

„Ef mér tekst að æfa og framkvæma þá hluti sem ég veit að ég get gert og undirbúa mig þá veit ég að get það,“ sagði Woods á fréttamannafundi um helgina.

Hann lenti í alvarlegu bílslysi árið 2021 og gekkst undir skurðaðgerð á ökkla fyrr á þessu ári.

Af þeim sökum þarf Wood að passa sérstaklega vel upp á líkamann og hefur til að mynda verið ráðlagt að taka þátt í einu móti í hverjum mánuði á næsta ári.

„Ég get enn slegið golfkúluna. Þetta snýst bara um að undirbúa sig, ná að æfa nógu mikið og koma sér í gott líkamlegt form, þá aðallega hvað úthaldið varðar.

Fóturinn á mér hefur ekki verið nægilega góður þegar kemur að því að keppa og leika margar holur. Það erfiðasta við þetta er að koma því í kring að geta leikið 72 holur,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka