Vill snúa aftur eftir fangelsisvist

Ángel Cabrera.
Ángel Cabrera. AFP/Don Emmert

Argentínski kylfingurinn Ángel Cabrera bindur vonir við að snúa aftur og taka þátt á Masters-mótinu í Augusta í Georgíuríki í Bandaríkjunum þegar fram líða stundir eftir að hafa fengið reynslulausn úr fangelsi í heimalandinu.

Cabrera hefur á ferlinum unnið tvö stórmót, Opna bandaríska meistaramótið árið 2007 og Masters-mótið árið 2009.

Hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir líkamsárás, hótanir og áreitni í garð tveggja fyrrverandi kærasta sinna, Ceciliu Torres Mana og Micaelu Escudero.

Cabrera fékk reynslulausn í ágúst síðastliðnum og hefur PGA-mótaröðin greint frá því að hann sé gjaldgengur til að taka þátt í mótum á vegum mótaraðarinnar.

Skammast mín niður í tær

Í samtali við Golf Digest greinir Cabrera, sem er 54 ára, frá baráttu sinni við áfengissýki og að hann iðrist gjörða sinna.

„Ég gerði alvarleg mistök. Ég vildi ekki hlusta á neinn og gerði það sem mér sýndist þegar mér sýndist. Það var rangt af mér. Ég bið Micaelu fyrirgefningar. Ég bið Celiu fyrirgefningar.

Það var óheppni þeirra að vera með mér þegar ég var upp á mitt versta. Ég var ekki djöfullinn en ég hagaði mér illa.

Ég skammast mín niður í tær því ég olli fólkinu sem stendur mér næst og öllum sem elska mig í gegnum golfið vonbrigðum. Golf færði mér allt og ég veit að ég get aldrei borgað íþróttinni til baka að fullu,“ sagði Cabrera við Golf Digest.

Lífið snýst um golf

Hann sneri nýverið aftur á golfvöllinn og hafnaði í tíunda sæti á móti í Argentínu.

„Mér líður eins og ég sé endurfæddur og ég vonast til þess að geta snúið aftur á Masters-mótið. Golf er mér allt. Lífið mitt snýst um það. Ég verð að halda áfram,“ sagði Cabrera einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka