Vita hve þrjóskur ég get verið

Xander Schauffele með glæsilegan bikar sem hann hlaut fyrir sigurinn …
Xander Schauffele með glæsilegan bikar sem hann hlaut fyrir sigurinn á PGA-meistaramótinu. AFP/Christian Petersen

Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele var að vonum hæstánægður eftir að hafa tryggt sér sigur á sínu fyrsta stórmóti í golfi í gær er hann vann PGA-meistaramótið í golfi í Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum.

Schauffele hefur verið í fremstu röð um nokkurra ára skeið og stóð til að mynda uppi sem ólympíumeistari á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan sumarið 2021.

„Það er gífurlega þungu fargi af mér létt,“ sagði hann í samtali við kanadísku sjónvarpsstöðina TSN.

Hef ræktað með mér þolinmæði

Schauffele er í þriðja sæti heimslistans og hefur leikið afar vel á yfirstandandi tímabili. Í gær tókst honum loks að vinna langþráð stórmót.

„Ég hef ræktað með mér þolinmæði með því að ná ekki að vinna stórmót undanfarin tvö ár. Fólkið sem stendur mér næst veit hve þrjóskur ég get verið.

Þetta er æðislegt, þetta er ótrúlega indælt. Þegar ég skoða þetta nánar er ég mjög stoltur af því hvernig ég brást við í vissum aðstæðum á vellinum.

Ég sagði við sjálfan mig að ég þyrfti að vinna fyrir þessu og njóta augnabliksins og mér tókst að gera það,“ sagði Schauffele á fréttamannafundi eftir sigurinn í gær.

Allt öðruvísi en Ólympíuleikarnir

Schauffele bætti því við að hann stefndi ótrauður á að taka þátt á Ólympíuleikunum í París í sumar, þar sem hann á titil að verja.

„Þetta er allt annað en Ólympíuleikarnir. Þetta hjálpar vitanlega við ferlið við að komast þangað. Það var auðvitað markmiðið mitt, að komast í liðið. Bandaríska liðið er mjög sterkt.

Ég býst við því að þessi sigur hjálpi mér að komast á Ólympíuleikana. Það er allt öðruvísi að vinna á leikunum en þessi sigur gefur mér sannarlega sjálfstraust fyrir framhaldið,“ sagði Schauffele.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert