Draga ákæru á hendur Scheffler til baka

Scheffler er nú laus allra mála.
Scheffler er nú laus allra mála. AFP/Glyn Kirk

Saksóknarar í Kentucky-ríki Bandaríkjanna hafa dregið allar kærur á hendur Scottie Scheffler, eins fremsta kylfings heims, til baka. Honum var gefið að sök að hafa hunsað tilmæli lögreglu við umferðarljós nærri vettvangi PGA-meistaramótsins fyrr í mánuðinum. 

Scheffler var handtekinn að morgni 17. maí, klæddur í fangabúning og ljósmyndaður áður en hann var látinn laus og hélt aftur á Valhalla-völlinn þar sem mótið fór fram.

Sagður hafa dregið lögreglumanninn

Samkvæmt skýrslu lögreglu keyrði Scheffler á gangstéttarbrún nærri inngangi vallarins eftir að lögreglumenn voru búnir að girða svæðið í tengslum við umferðarslys á svæðinu, þar sem að maður lét lífið. 

Að sögn lögreglu átti Scheffler að hafa hunsað tilmæli lögreglu um að stöðva bifreið sína og í stað þess gefið í, sem varð til þess að lögreglumaður nærri bifreiðinni festist við bifreiðina og dróst með henni einhverja vegalengd, þar til hann féll til jarðar.

Lögreglumaðurinn þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi í kjölfarið, en lögfræðingar Scheffler neituðu því að lögreglumaðurinn hefði dregist með bifreiðinni. 

Ekki nægileg sönnunargögn

Dómarinn Mike O'Connell mat það sem svo að ekki væru nægileg sönnunargögn í málinu og sagði að draga ætti ákæruna til baka. 

Scheffler fagnaði niðurstöðu dómarans og sagðist enga óvild bera í garð lögreglumannsins í færslu á Instagram. 

Scheffler var ákærður fyrir líkamsárás á lögreglumanninn, glæpsamlegt athæfi, óábyrgan akstur og fyrir að hunsa tilmæli lögreglu í umferðinni. 

Lögmaður Scheffler sagði skjólstæðing sinn neita allri sök og að hann hefði engan áhuga á að játa á sig sök í skiptum fyrir minni refsingu.

Þá var honum fagnað þegar hann mætti að nýju á völlinn eftir handtökuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert