Stjórn PGA-mótaraðarinnar í golfi hefur tekið ákvörðun um að veita Tiger Woods sæti til lífstíðar á öllum aðal mótum mótaraðarinnar sem ekki teljast til stórmóta.
Woods hefur alls unnið 82 mót á PGA-mótaröðinni, þar á meðal 15 stórmót, en hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár.
Alls er um átta mót að ræða á hverju tímabili og segir í tilkynningu stjórnar PGA-mótaraðarinnar að ákvörðunin hafi verið tekin með tilliti til þess magnaða árangurs sem Woods hefur náð á ferli sínum.
Hann hefur unnið flest mót í sögu mótaraðarinnar ásamt Sam Snead og unnið næstflest stórmót. Aðeins Jack Nicklaus hefur unnið fleiri stórmót en Woods, 18.