Ljóst hverjir mætast í 16-manna úrslitum

Jóhannes Guðmundsson.
Jóhannes Guðmundsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslandsmótið í holukeppni 2024 í karlaflokki fer fram á Garðavelli á Akranesi hjá Golfklúbbnum Leyni dagana 22.-24. júní. Fyrst var keppt um titilinn árið 1988 og er þetta 36. mótið í röðinni.

Í dag fór fram fyrri hluti Íslandsmótsins og var leikinn 36 holu höggleikur án forgjafar, þar sem sextán efstu keppendurnir komust áfram í útsláttarkeppni.

Alls léku átta leikmenn í bráðabana um sjö laus sæti í 16. manna úrslitum en þeir voru allir jafnir í 10. sæti á einu höggi yfir pari samtals.

Fyrsta holan í bráðabananum var 10. brautin á Garðavelli þar sem að fimm leikmenn tryggðu sér sæti með því að fá fugl eða par. Einar Helgi Bjarnason og Birgir Björn Magnússon, fengu fugl, Hjalti Hlíðberg Jónasson, Kristófer Karl Karlsson og Jóhann Frank Halldórsson fengu allir par.

Jóhannes Guðmundsson, Lárus Ingi Antonsson og Daníel Ingi Sigurjónsson fengu allir skolla á 10. brautina fóru þeir næst á holu 13. holu.

Þar fékk Daníel Ingi fugl og tryggði sig áfram en Jóhannes og Lárus Ingi fengu báðir par.

Jóhannes og Lárus Ingi léku 18. brautina næst þar sem þeir fengu báðir par.

Úrslitin réðust síðan á fjórðu holu bráðabanans á 10. braut þar sem að Jóhannes Guðmundsson fékk fugl og tryggði sér síðasta sætið í 16-manna úrslitum en Lárus Ingi féll úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert