Fór holu í höggi tvisvar í röð

Ljósmynd/Colourbox

Bandaríski kylfingurinn Frank Bensel Jr. náði þeim eftirtektarverða árangri að fara holu í höggi á tveimur holum í röð á öðrum hring Opna bandaríska meistaramóti öldunga í golfi í Newport í Rhode Island-ríki í morgun.

Bensel Jr. gerði sér lítið fyrir og fór fjórðu holu, sem er par þrjú hola, á einu höggi og fylgdi því svo eftir á fimmtu holu, sem einnig er par þrjú hola, með því að fara hana einnig á einu höggi.

Í högginu á fjórðu holu sló hann golfkúluna rúmlega 168 metra og tæplega 186 metra í högginu á fimmtu holu.

Samkvæmt Yahoo Sports eru líkurnar á því að ná holu í höggi tvisvar sinnum á einum hring 67 milljónir gegn einum. Í Bandaríkjunum er haldin skrá yfir alla þá sem hafa farið holu í höggi frá upphafi í landinu.

Þeir sem hafa veg og vanda af skránni hafa hins vegar aldrei reiknað út hverjar líkurnar eru á því að fara tvær holur í höggi í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert