Meistarinn í forystu eftir glæsilegan dag

Ragnhildur Kristinsdóttir lék gríðarlega vel í dag.
Ragnhildur Kristinsdóttir lék gríðarlega vel í dag. Ljósmynd/Seth@golf.is

Ríkjandi Íslandsmeistarinn Ragnhildur Kristinsdóttir er í forystu eftir tvo hringi á Íslandsmótinu í golfi en hún átti glæsilegan dag á Hólmsvelli í Leiru í dag. 

Ragnhildur átti besta hring mótsins til þessa er hún lék á 67 höggum, fjórum höggum undir pari. Er hún með tveggja högga forystu á Evu Kristinsdóttur sem var í efsta sæti eftir fyrsta hring í gær, og Huldu Clöru Gestsdóttur.

Eva lék á 74 höggum í dag og Hulda Clara, sem varð Íslandsmeistari árið 2021, lék á 71 höggi. Eru þær báðar á einu höggi yfir pari.

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er fjórða á fjórum höggum yfir pari og Íslandsmeistarinn 2022 Perla Sól Sigurbrandsdóttir er í fimmta sæti ásamt Andreu Björgu Bergsdóttur á fimm höggum yfir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert