Hestar sluppu inn á Hlíðavöll í Mosfellsbæ í gær og skildu eftir hófför á nokkrum brautum. Talsverðar skemmdir urðu á vellinum.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar birtir á Facebook síðu klúbbsins mynd af hófförum á púttflöt Hlíðavallar en sex hestar náðust á mynd þjóta yfir vallarsvæðið. Samkvæmt tilkynningu klúbbsins fóru hestarnir yfir æfingaflöt við fyrsta teig.
„Þaðan hlupu þeir svo yfir 2. brautina, aðeins niður á 4. braut og svo enduðu þeir á því að fara aðeins yfir 6. braut áður en þeir hlupu svo yfir 5. brautina og út á reiðveginn“. Segir í tilkynningunni og bætt er við að þeir sem lenda í hóffari utan brautar fái lausn frá því.
Á íbúasíðu Mosfellsbæjar er birt mynd af hestunum en hana má sjá hér að neðan.