Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR stóð uppi sem sigurvegari í Einvíginu á Nesinu sem fram fór í 28. sinn í Nesklúbbnum á Seltjarnarnesi í dag.
Mótið er árlegt góðgerðarmót Nesklúbbsins og var haldið í samstarfi við Arion Banka í ár.
Arion Banki veitti í mótslok forsvarsmanni Umhyggju ávísun upp á eina milljón króna.
Fyrstu tvær holurnar voru leiknar með því sniði að sá féll úr leik á fyrstu braut sem er fjærst holu eftir þrjú högg og eftir tvö högg á annarri braut. Böðvar Bragi Pálsson úr GR féll úr leik að lokinni fyrstu braut og Karlotta Einarsdóttir úr NK að lokinni annarri braut.
Eftir það var farið í hefðbundna útsláttarskeppni, eins og hefð er fyrir í mótinu, þar sem þau sem eru með hæsta skorið á viðkomandi braut falla úr leik.
Að lokinni þriðju holu féll fyrrverandi atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr leik og að lokinni fjórðu braut Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG. Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR og systir sigurvegarans, féll úr leik að lokinni fimmtu braut og Aron Snær Júlíusson úr GKG, nýkrýndur Íslandsmeistari, að lokinni sjöttu braut.
Logi Sigurðsson úr GS, fyrrverandi Íslandsmeistari í höggleik og Íslandsmeistari í holukeppni, féll þá úr leik að lokinni sjöundu braut og Aron Emil Gunnarsson úr GOS, að lokinni áttundu braut.
Það voru því Kjartan Óskar Guðmundsson úr NK og Dagbjartur Sigurbrandsson sem léku níundu brautina og að lokum Dagbjartur sem stóð uppi sem sigurvegari en honum dugaði að tvípútta til að tryggja sér sigurinn.
Að venju var góð stemning á Nesinu og þetta árið einkar gott veður - stafalogn á Seltjarnarnesi.