Íslandsmeistarinn og Ólafía Þórunn mætast á Nesinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tekur þátt í Einvíginu á Nesinu en …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tekur þátt í Einvíginu á Nesinu en hún tók síðast þátt árið 2022. mbl.is/Óttar Geirsson

Nýkrýndur Íslandsmeistari karla í golfi, Aron Snær Júlíusson úr GKG er meðal 10 þátttakenda í Einvíginu á Nesinu sem hefst klukkan 13 í dag. Athygli vekur að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, fyrrum atvinnukylfingur, tekur þátt en hún hefur ekki keppt í golfi á undanförnum tveimur árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nesklúbbnum.

Aron Snær Júlíusson, nýkrýndur Íslandsmeistari verður á Nesvellinum í dag.
Aron Snær Júlíusson, nýkrýndur Íslandsmeistari verður á Nesvellinum í dag. Ljósmynd/Seth@golf.is

Perla Sól tekur þátt en ekki Bigir Björn

Þá mætir Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR, sem nýverið var valin í úrvalslið Evrópu fyrir Junior Solheim-bikarinn sem og fyrrverandi Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni Logi Sigurðsson úr GS. Birg­ir Björn Magnús­son sem fagnaði sigri á síðasta ári er ekki meðal þátttakenda í ár. 

Einvígið á Nesinu fer fram í 28. sinn í dag en mótið er árlegt góðgerðarmót Nesklúbbsins og er það haldið í samstarfi við Arion Banka í ár.

Birgir Björn Magnússon fagnaði sigri í fyrra en tekur ekki …
Birgir Björn Magnússon fagnaði sigri í fyrra en tekur ekki þátt í ár. mbl.is/Óttar Geirsson

Umhyggja fær eina milljón króna

Fyrstu tvær holurnar verða með því sniði að sá fellur úr leik á fyrstu braut sem er fjærst holu eftir þrjú högg og eftir tvö högg á annarri braut.

Eftir það verður farið í þá hefðbundnu eða útsláttarskeppni, eins og hefð er fyrir í mótinu, þar sem þau sem eru með hæsta skorið á viðkomandi braut falla úr leik.

Við hvetjum alla til að koma og fylgjast með nokkrum fremstu kylfingum þjóðarinnar leika í þágu góðs málefnis.

Arion Banki veitir í mótslok forsvarsaðila Umhyggju ávísun upp á eina milljón króna.

Þátttakendur í Einvíginu á Nesinu 2024 eru:

Aron Emil Gunnarsson, GOS
Aron Snær Júlíusson, GKG
Böðvar Bragi Pálsson, GR
Dagbjartur Sigurbrandsson, GR
Gunnlaugur Árni Sveinsson, GK
Karlotta Einarsdóttir, NK
Kjartan Óskar Guðmundsson, NK
Logi Sigurðsson, GS
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert