Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur tók afgerandi forystu í karlaflokki á fyrsta keppnisdegi Hvaleyrarbikarsins í golfi í Hafnarfirði og setti um leið nýtt vallarmet á Hvaleyrarvelli.
Tómas lék á 65 höggum í blíðskaparveðri og var á sjö höggum undir pari vallarins sem hefur verið breytt á síðustu árum. Fyrr í sumar voru tvær nýjar brautir teknar í notkun og besta skorið af meistaraflokksteigum eftir það var 68 högg hjá Axel Bóassyni eða þar til í dag.
Fimm kylfingar léku á 70 höggum og koma næstir. Í þeim hópi er Íslandsmeistarinn Aron Snær Júlíusson úr GKG en hann er einnig efstur á stigalistanum á mótaröðinni. Jóhann Frank Halldórsson GR, Arnar Daði Svavarsson GKG, Aron Emil Gunnarsson Golfklúbbi Selfoss og Kristófer Orri Þórðarson GKG léku einnig á 70 höggum.
Eva Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar var sú eina sem lék undir pari í kvennaflokki. Hún lék á 70 höggum og er því á tveimur undir pari. Fjórum höggum á eftir henni kemur Berglind Erla Baldursdóttir einnig úr GM. Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG lék á 76 höggum eins og Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar.
Hulda sigraði í Hvaleyrarbikarnum í fyrra og er í þriðja sæti stigalistans á mótaröðinni en Hvaleyrarbikarinn er jafnframt lokamótið á mótaröð GSÍ.
Annar hringurinn verður leikinn á morgun og lýkur mótinu á sunnudag þegar kylfingarnir hafa leikið 54 holur eins og tíðkast á stigamótunum.