Rændur í Lundúnum en vann næsta mót

Hideki Matsuyama kátur með sigurlaunin um helgina.
Hideki Matsuyama kátur með sigurlaunin um helgina. AFP/Andy Lyons

Japanski kylfingurinn Hideki Matsuyama bar sigur úr býtum á St. Jude-mótinu, sem er hluti af FedEx úrslitakeppninni, um helgina þrátt fyrir að hafa lent í leiðinlegri lífsreynslu í síðustu viku.

Matsuyama, sem vann nýverið til bronsverðlauna í golfi karla á Ólympíuleikunum í París, hélt þaðan til Lundúna áður en hann flaug til Germantown í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum til að taka þátt á St. Jude-mótinu.

Í Lundúnum hafði hann farið út að borða á veitingastað ásamt kylfusveini sínum Shota Hayafuji og þjálfara sínum Mikihito Kuromiya.

Kylfusveinninn og þjálfarinn fóru heim

Voru þeir allir með farangur sinn meðferðis og þegar Matsuyama greiddi reikninginn áttuðu þremenningarnir sig á því að farangurinn var horfinn eftir að óprúttinn aðili rændi honum.

„Þetta voru óheppilegar aðstæður. Sem betur fer tapaði ég einungis veskinu mínu en kylfusveinninn minn Shota og þjálfarinn minn töpuðu vegabréfum sínum,“ sagði hann í samtali við heimasíðu PGA-mótaraðarinnar.

Af þeim sökum neyddust kylfusveinninn og þjálfarinn að ferðast heim til Japan á meðan Matsuyama ferðaðist einn til Bandaríkjanna.

Fær að halda starfinu

„Við erum að vinna hörðum höndum að því að verða þeim úti um nýjar vegabréfsáritanir og vonandi geta þeir komið aftur til liðs við okkur sem fyrst,“ bætti hann við.

Taiga Tabuchi hljóp í skarðið sem kylfusveinn Matsuyama á mótinu um helgina en hann er venjulega kylfusveinn Ryo Hisatsune, sem komst ekki áfram í úrslitakeppnina.

Með nýja kylfusveininum tókst honum að leika hringina fjóra á 17 höggum undir pari og fara með sigur af hólmi.

Í ljósi góðs árangurs með Tabuchi sér við hlið var Matsuyama spurður hvort Hayafuji væri enn með starf sem kylfusveinn þegar hann sneri aftur.

„Að sjálfsögðu,“ svaraði Matsuyama og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert