Vann háskólamót í Bandaríkjunum

Gunnlaugur Árni Sveinsson.
Gunnlaugur Árni Sveinsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Gunnlaugur Árni Sveinsson, kylfingur úr GKG, bar sigur úr býtum á Blessings Collegiate Invitational-mótinu um síðustu helgi, sem er hluti af keppni í efstu deild NCAA háskólagolfsins í Bandaríkjunum.

Landsliðskylfingurinn lék frábært golf en hann lék hringina þrjá á 71 höggi, 67 höggum og 71 höggi, eða 7 höggum undir pari vallar í Fayetteville í Arkansas-ríki.

Gunnlaugur Árni sigraði með þriggja högga mun en liðsfélagi hans, Algot Kleen frá Svíþjóð, varð annar er hann lék á fjórum höggum undir pari. Kleen lék lokahringinn á 63 höggum eða átta undir pari vallarins.

Gunnlaugur Árni hóf nám í haust í Louisiana State University, LSU, í Baton Rouge í Louisiana-ríki og er á sínu fyrsta ári með liðinu.

Mótið sem Gunnlaugur Árni vann var það þriðja sem hann tekur þátt í á tímabilinu. Þetta var í annað sinn sem hann var í sigurliði á háskólamóti og í fyrsta sinn í einstaklingskeppni.

Karlalið LSU sigraði með yfirburðum í liðakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert