Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir standa báðar ágætlega að vígi eftir fyrsta hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi sem hófst í Marrakech í Marokkó í morgun.
Guðrún og Ragnhildur eru hnífjafnar því þær léku báðar fyrsta hringinn á pari, 73 höggum, og sem stendur deila þær 54. sæti með mörgum öðrum keppendum en margar eiga eftir að ljúka keppni í dag.
Alls fengu 154 konur keppnisrétt á mótinu og þær berjast í fimm daga um að komast á Evrópumótaröðina 2025. Eftir fjóra daga komast efstu 65 kylfingarnir á lokahringinn þar sem úrslitin ráðast og þær Guðrún og Ragnhildur eru með í þeirri baráttu.
Eins og einhverjir lesendur tóku kannski eftir var fyrr í dag birt frétt um að Guðrún Brá hefði farið holu í höggi, á elleftu holu vallarins í Marrakech. Þetta var skráð á úrslitasíðu mótsins og stóð þar í góða stund, en síðan kom í ljós að um mistök í skráningu var að ræða og Guðrún hafði leikið holuna á fimm höggum. Fréttin var því fjarlægð af mbl.is um leið og þetta lá fyrir.