Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir hófu keppni í morgun á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi 2025 en það fer fram í Marrakech í Marokkó.
Þar keppa 154 kylfingar um keppnisréttinn á mótaröðinni. Allar leika fyrstu fjóra hringina, til fimmtudags, og á föstudaginn leika 65 efstu konurnar lokahringinn.
Guðrún komst beint á lokaúrtökumótið með góðum árangri á LET Access mótaröðinni á þessu ári en þar endaði hún í 21. sæti á stigalistanum.
Ragnhildur hóf keppni á fyrra stigi úrtökumótsins en þar lék hún afar vel og vann mótið.
Eins og staðan er núna hefur Guðrún leikið fyrstu sjö holurnar á einu höggi yfir pari og Ragnhildur fyrstu fimm á pari. Efstu konur eru á þremur höggum undir pari.