„Það er búið að vera mjög fínt hérna. Þetta er búinn að vera langur dagur,“ sagði Gunnlaugur Árni Sveinsson eftir fyrsta keppnisdag hans með Evrópuúrvali áhugakylfinga í Sameinuðu arabísku furstadæmunum gegn úrvalsliði Asíu og Eyjaálfu í keppni sem nefnist Bonallack Trophy í dag.
„Við vorum að koma heim eftir 36 holur, sem var alveg svolítið mikið í þessum hita en mjög gaman. Þetta voru hörkuleikir báðir, það eru allir toppspilarar hérna þannig að það verða allir leikir erfiðir og góðir.
Ég og liðsfélagi minn spiluðum mjög vel í dag. Þetta datt bara okkar megin í öðrum leiknum og hinum megin í hinum. Heilt yfir er ég sáttur með daginn og það er allt jafnt fyrir morgundaginn,“ sagði Gunnlaugur Árni í samtali við mbl.is.
Í morgun tapaði hann viðureign í fjórmenningi ásamt liðsfélaga sínum, hinum sænska Algot Kleen, en síðar í dag unnu þeir svo sinn leik í fjórleik. Eftir fyrsta keppnisdag er staðan hjá úrvalsliðunum tveimur jöfn, 5:5.
Spurður hvort einhvers munar hefði gætt í spilamennsku Gunnlaugs Árna og Kleen á milli leikjanna tveggja sagði hann:
„Við spiluðum mjög vel í báðum leikjunum. Í fyrri leiknum, í fjórmenningnum, vorum við ekki með neinn skolla sem er venjulega mjög gott í fjórmenningi en þegar þú ert með hörku kylfinga á móti þér þá dugar það stundum bara ekki.
Við hefðum þurft að fá nokkur pútt til að detta en það kom aðeins meira í seinni leiknum og þá rigndi inn fuglunum. Við náðum almennilegu forskoti á fyrri níu holunum með mörgum fuglum í röð. Svo var þetta svolítið að klára leikinn og sigla þessu heim.“
Á morgun er dagskráin eins og var í dag; keppt verður í fjórmenningi um morguninn og fjórleik síðar um daginn, alls 36 holur sem verða leiknar.
Verðið þið Kleen líka saman í liði á morgun?
„Já, við erum allavega búnir að fá upplýsingar fyrir fyrri leikinn og við erum aftur saman í fjórmenningi í fyrramálið. Svo eigum við eftir að fá liðsuppstillinguna fyrir seinni leikinn. Það kemur í ljós,“ sagði Gunnlaugur Árni, sem líst vel á framhaldið á mótinu.
„Mjög vel. Allir í kringum liðið hafa verið mjög flottir, leikmenn og þjálfarar, og við erum allir mjög metnaðarfullir þegar kemur að því að fara alla leið og vinna þetta.
Við erum í hörkubaráttu núna þannig að það er bara að halda áfram, vera aðeins klókari til þess að loka leikjum og reyna að sigla fleiri sigrum heim,“ sagði kylfingurinn efnilegi úr GKG að endingu í samtali við mbl.is.