Gunnlaugur Árni Sveinsson og liðsfélagar hans í Evrópuúrvali áhugakylfinga eru jafnir úrvalsliði Asíu og Eyjaálfu eftir annan keppnisdag í Bonallack Trophy í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Gunnlaugur Árni lék líkt og í gær með Svíanum Algot Kleen og töpuðu þeir viðureign sinni í fjórmenningi í morgun, 4/2. Asía og Eyjaálfa hafði að lokum betur í fjórmenningnum, 3:2.
Síðar um daginn léku þeir einnig saman í fjórleik, töpuðu þar sömuleiðis viðureign sinni, 1/0, en lið Evrópu vann fjórleikinn 3:2.
Þar með er staðan hnífjöfn, 10:10, að loknum öðrum keppnisdegi. Síðasti keppnisdagurinn verður á morgun þar sem keppt verður í tvímenningi.