Festist inn á klósetti á mikilvægasta móti ársins

„Ég hlæ að þessu í dag, af því að þetta endaði vel, en þetta var ekkert mjög fyndið þegar þetta var að eiga sér stað,“ sagði atvinnukylfingurinn og þrefaldi Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir í Dagmálum.

Guðrún Brá, sem er þrítug, stendur á tímamótum á sínum ferli eftir að hafa tryggt sér takmarkaðan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á komandi keppnistímabili.

Stökk á klósettið

Guðrún Brá lenti í óskemmtilegri lífsreynslu á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina árið 2023 í Marokkó og situr atvikið ennþá í henni.

„Dagurinn byrjaði á því að það sprakk dekk á bílnum hjá okkur þannig að maður fann það strax að þessi dagur yrði ákveðin prófraun,“ sagði Guðrún Brá.

„Eftir fyrstu þrjár holurnar stekk ég á klósettið, alveg við fjórða teiginn. Þegar ég ætlaði að opna hurðina dettur lásinn af og ég festist inn á klósetti, á miðjum golfhring á stærsta og mest stressandi móti ársins.

Hausinn á mér fer á fullt og ég fer strax að velta því fyrir mér hvort ég yrði rekin úr keppni fyrir það að mæta ekki á réttum tíma á teig. Ég byrja að panikka og banka á hurðina. Svo kemur stelpan sem er að spila með mér og spyr hvort það sé ekki allt í lagi. Ég segi henni að ég sé læst inn á klósetti.

Þegar ég næ að róa mig tek ég tvö tí upp úr vasanum mínum og ég næ að snúa lásnum og komast út. Þá var bara áfram gakk og fjórtán holur eftir. Ég skalf þegar ég kom að teignum og það eina sem ég hugsaði um var að hitta boltann, á erfiðustu holu vallarins. Ég man ekki eftir einu höggi allan hringinn. Ég upplifði mikil spennufall eftir hringinn og ég hringdi beint í mömmu og byrjaði að hágráta,“ sagði Guðrún Brá meðal annars.

Viðtalið við Guðrúnu Brá í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Tristan Jones
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert