„Ég fæ engan pening fyrir þessi úrtökumót en ég held reyndar að það sé nýtilkomið núna að efstu fimm sætin fá einhver peningaverðlaun,“ sagði atvinnukylfingurinn og þrefaldi Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir í Dagmálum.
Guðrún Brá, sem er þrítug, stendur á tímamótum á sínum ferli eftir að hafa tryggt sér takmarkaðan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á komandi keppnistímabili.
Verðlaunafé kvennamegin hefur verið af skornum skammti í gegnum tíðina þó það sé á uppleið í dag.
„Strákarnir fá mjög góða greiðslu fyrir það að tryggja sér sæti á Evrópumótaröðinni og það er rosalega mikill munur á kvennagolfi og karlagolfi, því miður,“ sagði Guðrún Brá.
„Það er mjög pirrandi en þetta er samt að verða betra og frá því að ég byrjaði, árið 2018, er þetta alltaf að batna. Það fylgir þessu mikill kostnaður og að taka þátt í móti í Evrópu er að kosta í kringum 300.000 krónur fyrir mig.
Það er dýrt að vera frá Íslandi og að standa í þessu,“ sagði Guðrún Brá meðal annars.