Íslandsvinurinn Justin Rose er enn efstur þegar Masters mótið í golfi er hálfnað í Georgíuríki í Bandaríkjunum. ,
Rose er með eitt högg í forskot á Bryson DeChambeau en Rose er á 8 undir pari. Næstir koma Rory McIlroy og Corey Conners á samtals 6 undir pari.
Efsti maður heimslistans Scottie Scheffler er á 5 undir pari en hann lék á höggi undir pari í dag rétt eins og Rose. Scheffler var kominn samtals 6 undir eftir 8 holur en var mistækur eftir það. Á fyrsta hringnum í gær var hann á 4 undir og virtist lítið þurfa að hafa fyrir því.
Matt McCarty, Tyrrell Hatton og Shane Lowry eru einnig á 5 undir pari. McCarty hefur komið mjög á óvart í frumraun sinni á mótinu.
Justin Rose er 44 ára gamall og hefur aldrei sigrað á Masters en hafnaði í 2. sæti 2015 og 2017. Hann hefur þó sigrað á risamóti og gerði það á Opna bandaríska árið 2013. Rose varð auk þess Ólympíumeistari 2016 og hefur orðið stigameistari á PGA-mótaröðinni. Hann kom til Íslands fyrir rúmum tveimur áratugum og lék þá Hvaleyrarvöll í Canon boðsmótinu.