Íslenska karlalandsliðið í hanbolta er komið í úrslit Evrópukeppni landsliða eftir að hafa lagt Makedóníumenn að velli í undankeppni EM með samtals sex marka mun. Síðari viðureign þjóðanna fór fram í Skopje í kvöld og sigruðu heimamenn með þriggja marka mun, 32:29, en Íslendingar unnu fyrri leikinn fyrir viku með níu marka mun og komust því örugglega áfram.
Íslenska liðið lék mjög skynsamlega í kvöld en heimavöllur Makedóníu í Skopje þykir mjög erfiður og hafa margar stórþjóðir farið illa út úr viðureignum sínum við heimamenn þar. Með sterkum varnarleik og öguðum sóknarleik tókst Íslendingum að halda leiknum í jafnvægi og var staðan í leikhléi jöfn, 13:13. Mótlætið fór mjög í skapið á fjölmörgum áhorfendum í íþróttahöllinni í Skopje og þurfti að gera langt hlé á fyrri hálfleik vegna óláta áhorfenda. Íslensku leikmennirnir héldu ró sinni og sama er að segja um dómara leiksins sem dæmdu mjög vel. Síðari hálfleikur var líkur þeim fyrri; Makedóníumönnum tókst ekki að hrista Íslendinga af sér, þótt þeir væru ávallt á undan að skora. Munurinn á liðunum varð aldrei meiri en 2-3 mörk í síðari hálfleik og þegar skammt var til leiksloka náðu Íslendingar að jafna. Síðustu mínúturnar var ljóst að Makedóníumönnum tækist ekki að vinna upp níu marka forskot Íslendinga frá því í fyrri leiknum og slökuðu þá íslensku leikmennirnir nokkuð á. Lokatölur urðu 32:29 og verða það að teljast aldeilis ágæt úrslit á þessum erfiða útivelli. Úrslit leiksins þýða að Íslendingar verða meðal þátttökuþjóða í Evrópukeppninni sem fram fer í Króatíu í janúar á næsta ári. Með góðum árangri þar tryggir liðið sér hugsanlega sæti á Ólympíuleikunum.