Markakóngur síðustu leiktíðar í DHL-deild karla í handknattleik, Valdimar Fannar Þórsson, er genginn til liðs við Fram á ný, frá HK. Valdimar er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Framara en hann var af leikmönnum deildarinnar valinn besti sóknarmaðurinn á lokahófi HSÍ í maí. Valdimar hefur leikið síðustu þrjú tímabil með HK, en þar áður var hann tvö leiktímabil hjá Fram. Frá þessu var greint á blaðamannafundi í dag.
Valdimar er 27 ára gamall og hóf sinn feril í meistaraflokki á Selfossi eftir að hafa leikið með Fylki í yngri flokkum. Hann hefur allan sinn feril verið iðinn við markaskorun og skoraði 162 mörk í DHL-deildinni í fyrra. Árið áður skoraði hann 158 mörk og tímabilið 2004-2005 gerði hann 144 mörk. Nokkur atvinnumannalið vildu fá Valdimar til liðs við sig en hann hafnaði þeim tilboðum sem bárust.