Birkir Ívar Guðmundsson, átti virkilega góðan leik í marki Hauka gegn Fram í kvöld, þegar Hafnfirðingar knúðu fram oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik.
„Bæði liðin voru að berjast af fullum krafti. Framarnir eiga hrós skilið fyrir sinn leik og ég reikna með því að þessi leikur hafi verið skemmtilegur á að horfa. Þetta eru tvö jöfn lið en við náðum góðum kafla seint í leiknum þar sem þeir misstu aðeins dampinn. Þeim tókst ekki að brúa það bil,“ sagði Birkir Ívar í samtali við mbl.is að leiknum loknum. Spurður um þær miklu sveiflur sem voru á milli hálfleikja segir Birkir erfitt að svara því en Fram vann fyrri hálfleik með fjórum mörkum en Haukar þann síðari með sjö marka mun:
,,Það var fyrst og fremst gíðarlega barátta af okkar hálfu og góð varnarvinna sem skóp þennan sigur. Mér fannst boltinn einfaldlega detta oftar fyrir okkur á lokakaflanum. Þetta var einhvern veginn þannig leikur. Þó svo að við höfum unnið með þriggja marka mun þá var leikurinn í járnum þar til fimm mínútur voru eftir. Þegar tíu mínútur voru eftir töpuðu þeir boltanum þrívegis með misheppnuðum sendingum og okkar tókst að bruna upp og skora. Það réði endanlega úrslitum.“
„Haukarnir voru betri í síðari hálfleik“
Andri Berg Haraldsson, leikmaður Fram, tjáði mbl.is að Haukar hefði átt sigurinn skilið. Þeir hafi verið betra liðið í seinni hálfleiknum: „Vörnin hætti að halda í síðari hálfleik. Við misstum dampinn í vörninni í síðari hálfleik eftir frábæran fyrri hálfleik. Við vorum einhvern veginn ekki nægilega beittir þegar á leið. Þegar vörnin fór að bila hjá okkur þá hættum við einnig að sækja af krafti í sókninni. Þá vorum við ekki nægilega agaðir í sókninni og gerðum of mikið af mistökum. Haukarnir spiluðu einfaldlega betur en við í seinni hálfleik og voru grimmari.“