Spaugileg uppákoma varð í leik Íslendinga og Eista í undankeppni EM í handknattleik í Pölva í Eistlandi í gær. Í síðari hálfleik blindaðist Hreiðar Leví Guðmundsson markvörður íslenska liðsins af sólinni sem skein glatt í gegnum gluggana á íþróttahöllinni og beint á íslenska markið. Það var ekki fyrr en hann var kominn með derhúfu á höfuðið að hann gat rýnt í gegnum geislana.
Guðmundur Guðmundsson þjálfari íslenska landsliðsins segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann hafi aldrei áður upplifað slíkt. Sendiherra Íslands í Eistlandi náði í derhúfuna út í bifreið sína og lét íslenska liðið hafa gripinn.