Akureyringar sigruðu Seltirninga með minnsta mun

Frá viðureign Gróttu og Akureyringa á Nesinu.
Frá viðureign Gróttu og Akureyringa á Nesinu. mbl.is/Ómar

Grótta og Akureyri mættust í N1 deild karla í handknattleik á Seltjarnarnesi klukkan 18:30. Akureyri sigraði 22:21 eftir afar jafnan og spennandi leik. Heimamenn voru yfir í hálfleik 11:9. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Markahæstur hjá Gróttu var línumaðurinn Atli Rúnar Steinþórsson með 7 mörk og Heimir Örn Árnason gerði slíkt hið sama fyrir Akureyri. 

60. mín: LEIK LOKIÐ: Akureyri sigraði 22:21. Grótta fékk boltann þegar 25 sekúndur voru eftir og áttu möguleika á því að jafna en Oddur Grétarsson komst inn í sendingu Hjalta Pálmasonar til Páls Þórólfssonar og leiktíminn rann út. 

54. mín: Staðan er 19:21 fyrir Akureyri. Gestirnir eru komnir með frumkvæðið og mun líklegri í augnablikinu til þess að landa stigunum. Eru mun yfirvegaðri í sínum aðgerðum. 

50. mín: Staðan er 18:18 og nokkuð ljóst að lokamínúturnar verða mjög spennandi. Jónatan Þór Magnússon hefur tekið við sér í síðari hálfleik og er kominn með 3 mörk fyrir Akureyringa. Hörður Flóki Ólafsson er einnig að standa sig ágætlega í marki gestanna.

40. mín: Staðan er 15:14 og Seltirningar því enn með frumkvæðið.  Atli Rúnar Steinþórsson er að spila vel á línunni hjá Gróttu og er kominn með 4 mörk auk þess að fiska vítakast. Hjalti Pálmason er einnig með 4 mörk í skyttustöðunni vinstra megin.

30. mín. Staðan er 11:9 í hálfleik. Bæði lið eru í vandræðum með sóknarleik sinn þegar andstæðingarnir ná að komast til baka og stilla upp í vörn. Flest mörk liðanna hafa komið úr hröðum sóknum. Anton Rúnarsson er markahæstur Gróttu með 6 mörk en Heimir Örn Árnason er með 6 hjá Akureyringum. 

17. mín: Staðan er 6:6. Akureyringar hafa tekið við sér og eru komnir inn í leikinn. Heimir Örn Árnason er í stuði í sókninni og er kominn með 4 mörk nú þegar.

6. mín: Heimamenn byrja mun betur og eru strax komnir með 5:2 forskot. Þeir keyra hratt á Akureyringa og hefur þannig tekist að skapa sér nokkur dauðafæri.  Páll Þórólfsson byrjar inn á sem fremsti maður í 5-1 vörn Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert