Fimmtán marka sigur Akureyrar

Oddur Gretarsson skoraði 12 mörk fyrir Akureyri í kvöld.
Oddur Gretarsson skoraði 12 mörk fyrir Akureyri í kvöld. mbl.is/Golli

Akureyringar eru komnir í annað sætið í úrvalsdeild karla í handknattleik, N1-deildinni, á ný eftir yfirburðasigur á Stjörnunni, 36:21, í Höllinni á Akureyri í kvöld.

Akureyri flaug þar með uppí 2. sæti deildarinnar með 20 stig, uppfyrir HK og FH, en er fjórum stigum á eftir toppliði Hauka. Stjarnan er áfram í 7. og næstneðsta sæti með 7 stig, jafnmörg og botnlið Fram.

Oddur Gretarsson skoraði 12 mörk fyrir Akureyri, Geir Guðmundsson 6 og þeir Heimir Örn Árnason og Bergvin Gíslason gerðu 5 mörk hvor. Þeir Tandri Konráðsson og Þórólfur Nielsen gerðu 4 mörk hvor fyrir Stjörnuna.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

60. mín. Leik lokið og munurinn jókst áfram. Lokatölur 36:21.

52. mín. Úrslitin eru ráðin á Akureyri því staðan er 30:17 og aðeins 8 mínútur eftir. Oddur Gretarsson er kominn með 12 mörk fyrir norðanmenn sem nú sigla uppí annað sæti deildarinnar.

40. mín. Akureyri ætlar ekki að hleypa Stjörnunni aftur inní leikinn. Staðan er 24:14 og öruggur sigur blasir við.

30. mín. Flautað til hálfleiks og staðan orðin 20:12, Akureyringum í vil. Eftir hnífjafnar 20 mínútur misstu þeir tvo menn af velli en héldu jöfnu, 1:1, á þeim kafla. Að honum loknum héldu Akureyrarliðinu engin bönd og það raðaði inn mörkum. Oddur Gretarsson hefur farið á kostum og skorað 8 marka heimamanna en Þórólfur Nielsen er með 3 mörk fyrir Garðbæinga.

20. mín. Allt í járnum á Akureyri og heimamenn með nauma forystu, 11:10. Oddur Gretarsson hefur skorað 5 mörk fyrir Akureyri en Þórólfur Nielsen 3 mörk fyrir Stjörnuna.

10. mín. Garðbæingar hafa  byrjað betur og eru með forystu, 6:4. Sex leikmenn hafa gert mörk þeirra en Oddur Gretarsson hefur skorað tvívegis fyrir Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert