Valsmenn mæta Haukum í úrslitum

Árni Þór Sigtryggsson leikmaður Akureyrar, og Baldvin Þorsteinsson, Valsmaður, eigast …
Árni Þór Sigtryggsson leikmaður Akureyrar, og Baldvin Þorsteinsson, Valsmaður, eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Valur vann í kvöld sigur á Akureyringum í framlengdum oddaleik í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik, 30:26. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 26:26 en Akureyringum tókst ekki að skora í framlengingunni. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Valsmenn mæta því Haukum í úrslitarimmunni líkt og í fyrra en fyrsta viðureignin er á Ásvöllum á föstudagskvöld.

Markahæstur hjá Val var Elvar Friðriksson með 8 mörk en Arnór Þór Gunnarsson gerði 7 mörk. Hjá Akureyri gerði Oddur Gretarsson 9 mörk og Heimir Örn Árnason 6 mörk. Hlynur Morthens varði 15 skot í leiknum fyrir Val en Hafþór Einarsson 13 fyrir Akureyri.

Leik lokið. 70. mín. Bensínið virtist hreinlega búið hjá Akureyringum í framlengingunni og þeir skoruðu ekki mark í henni. Valsmenn gerðu hins vegar tvö í sitt hvorum hálfleiknum og unnu 30:26.

69. mín. Sigfús Sigurðsson varnarmaður Vals fékk tveggja mínútna brottvísun en Akureyringar nýttu sér það ekki. Hlynur Morthens hefur varið og varið í framlengingunni svo gestirnir hafa enn ekki skorað í henni.

65. mín. Valur gerði tvö mörk gegn engu Akureyringa í fyrri hálfleik framlengingarinnar og er staðan 28:26. Valsmenn byrja þar að auki með boltann í seinni hálfleiknum.

Venjulegum leiktíma lokið. 60. mín. Jónatan Þór Magnússon jafnaði metin fyrir Akureyri í 26:26 með skoti af línunni þegar nákvæmlega 2 sekúndur voru eftir. Gestirnir virtust ekki hafa hugmynd um hvernig þeir ættu að nýta síðustu sóknina en í netið fór boltinn og framlenging tekur því við.

Markahæstur hjá Val eftir 60 mínútna leik er Elvar Friðriksson með 8 mörk en Arnór Þór Gunnarsson hefur gert 7, þar af 4 úr vítaköstum. Hjá Akureyri hefur Oddur Gretarsson gert 9 mörk, þar af 5 úr vítaköstum, og Heimir Örn Árnason hefur gert 6 mörk. Hlynur Morthens hefur varið 11 skot í marki Vals og Hafþór Einarsson 12 í marki Akureyrar, þar af þrjú vítaköst.

59. mín. Orri Freyr Gíslason kom Val í 26:25 þegar nákvæmlega mínúta var til leiksloka. Akureyringar hafa boltann og þeir hafa ákveðið að taka leikhlé.

58. mín. Valsmenn hafa haft frumkvæðið en Oddur Gretarsson var að jafna í 25:25 með marki úr vítakasti. Í kjölfarið klúðraði Sigurður Eggertsson þriðja skotinu í röð og hann er ekki sáttur.

56. mín. Elvar Friðriksson var að fara af velli, meiddur og sótbölvandi. Hugsanlegt að um tognun í nára sé að ræða.

55. mín. Það eru akkúrat fimm mínútur til leiksloka og staðan hnífjöfn, 24:24.

53. mín. Nú var Hafþór Einarsson að verja vítakast þriðja sinni og í kjölfarið minnkaði Akureyri muninn í 23:22. Það stefnir allt í svakalegar lokamínútur.

50. mín. Ingvar Guðmundsson ætlar að reynast Valsmönnum dýrmætur varamarkvörður í kvöld en hann hefur tvívegis komið inná til að verjast vítakasti, og varið í bæði skiptin.

49. mín. Arnór Þór Gunnarsson kom Val í 22:20 með laglegu marki úr vítakasti en hann þrumaði boltanum í samskeytin og inn. Arnór fagnaði þessu svo með viðeigandi hætti. Allt planað auðvitað...

45. mín. Akureyringurinn Hörður Fannar Sigþórsson var að fá tveggja mínútna brottvísun og strax í kjölfarið komust Valsmenn í 21:18 með tveimur mörkum í röð.

41. mín. Baldvin Þorsteinsson var að koma Val tveimur mörkum yfir með marki úr vinstra horninu og er staðan 19:17. Akureyringar hafa ekki skorað í sjö síðustu sóknum sínum!

35. mín. Elvar Friðriksson var að jafna metin fyrir Val í 17:17. Fannar Þór Friðgeirsson er kominn inná aftur með góðar umbúðir við annað munnvikið en hann fékk skurð í fyrri hálfleik.

33. mín. Valsmenn gerðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komust í 16:15 en í kjölfarið fékk Jón Björgvin Pétursson, sem skoraði 16. markið, tveggja mínútna brottvísun.

Hálfleikur. 30. mín. Akureyri hefur yfir í hálfleik, 15:14, eftir að Hafþóri Einarssyni markverði liðsins tókst að verja vítakast öðru sinni í leiknum. Fyrri hálfleikurinn hefur eins og tölurnar bera með sér verið jafn og spennandi, og mikil barátta í báðum liðum enda um algjöran úrslitaleik að ræða.

Markahæstur hjá Val í fyrri hálfleik var Arnór Þór Gunnarsson með 5 mörk en Elvar Friðriksson og Fannar Þór Friðgeirsson, sem meiddist seint í fyrri hálfleik, eru komnir með 3 mörk hvor. Hjá Akureyri hefur Oddur Gretarsson gert 5 mörk.

28. mín. Fannar Þór Friðgeirsson leikmaður Vals meiddist á 22. mínútu eftir viðskipti við Hörð Fannar Sigþórsson. Hann er nú inni í búningsklefa, að sögn með skurð í kringum munnvikið, og hefur verið auglýst eftir lækni í húsinu sem lappað gæti upp á kappann.

27. mín. Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals brá á það að taka leikhlé eftir að gestirnir höfðu gert fjögur mörk í röð og náð tveggja marka forskoti. Staðan er 15:13 Akureyri í vil og 3 mínútur og 20 sekúndur til hálfleiks.

25. mín. Akureyringar voru að jafna metin í 13:13 og í kjölfarið varði Hafþór Einarsson vítakast og gaf þar með Akureyringum færi á að komast yfir í fyrsta sinn í nokkurn tíma, eða frá því í stöðunni 5:4.

22. mín. Oddur Gretarsson var að jafna metin fyrir Akureyri í 10:10 með sínu þriðja marki, en þar af eru tvö úr vítaköstum. Gunnar Ingi Jóhannsson kom Valsmönnum í 11:10 strax á eftir en fékk svo í kjölfarið tveggja mínútna brottvísun.

18. mín. Hörður Flóki Ólafsson hefur aðeins varið eitt skot í marki Akureyrar og því hefur Hafþór Einarsson tekið hans stöðu. Hlynur Morthens var að verja sitt fjórða skot í marki Vals en staðan er 9:8 Hlíðarendapiltum í vil.

15. mín. Guðlaugur Arnarsson, varnartröllið í liði Akureyrar, fékk fyrstu brottvísun leiksins og um leið og hann kom inná var liðsfélagi hans Oddur Gretarsson sendur í tveggja mínútna hvíld sömuleiðis. Í kjölfarið komst Valur yfir í fyrsta skipti, 7:6, með fjórða marki Arnórs Þórs Gunnarssonar.

10. mín. Gestirnir hafa haft frumkvæðið þessar fyrstu mínútur en staðan er jöfn, 4:4. Ófá skot hafa verið varin af stæðilegum varnarmönnum liðanna. Áhorfendur eru orðnir ansi margir hér í Vodafonehöllinni en mun meira heyrist í stuðningsmönnum Vals.

5. mín. Akureyringar gerðu fyrstu tvö mörk leiksins en Arnór Þór Gunnarsson var að jafna metin í 2:2 með marki úr hraðaupphlaupi. Það stefnir í jafnan leik og af varnarleik liðanna að dæma verður engu minni harka í kvöld en verið hefur í rimmum liðanna.

0. mín. Höllin á Akureyri var stappfull þegar liðin mættust á laugardagskvöld en nú þegar fimm mínútur eru í leik er enn nóg af lausum sætum hér í Vodafonehöllinni.

0. mín. Akureyri vann fyrsta leik liðanna hér að Hlíðarenda en Valsmenn svöruðu með sigri norðan heiða á laugardagskvöld. Sigurvegarinn í kvöld mætir Haukum í úrslitum en Haukar unnu 2:0 sigur í einvíginu við HK.

Sigfús Páll reynir að brjóta sér leið í gegnum vörn …
Sigfús Páll reynir að brjóta sér leið í gegnum vörn Akureyrar. mbl.is/Helgi Steinar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert