Stórsigur Akureyringa í Kaplakrika

Ólafur Guðmundsson, FH, verður í eldlínunni gegn Akureyri í dag.
Ólafur Guðmundsson, FH, verður í eldlínunni gegn Akureyri í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Akureyringar eru efstir og ósigraðir þegar fyrsti þriðjungur N1-deildar karla í handknattleik er að baki eftir að þeir unnu stóran og öruggan sigur á FH, 33:25, í Kaplakrika í dag.  Leikmenn Akureyrar fóru á kostum í leiknum, ekki síst Sveinbjörn Pétursson sem varði 26 skot.

FH-ingar höfðu frumkvæðið framan af leik en eftir að Akureyringar komust yfir undir lok fyrri hálfleik þá litu þeir aldrei um öxl. Þeir hreinlega yfirspiluðu liðsmenn FH og náðu mest 12 marka mun, 31:19, áður en leikurinn leystist aðeins upp á lokakaflanum.

Mörk FH: Ólafur Gústafsson 7, Ólafur Guðmundsson 6, Ásbjörn Friðriksson 4/2, Atli Rúnar Steinþórsson 3, Logi Geirsson 2, Benedikt Reynir Kristinsson 1, Halldór Guðjónsson 1, Hermann Björnsson 1.
Varin skot: Pálmar Pétursson 6 (þaraf 3 til mótherja). Daníel Freyr Andrésson 4 (þaraf 1 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9/4, Geir Guðmundsson 6, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Oddur Gretarsson 6, Heimir Örn Árnason 5, Guðlaugur Arnarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 26 (þaraf 8 til mótherja).
Utan vallar: 12 mínútur.

54. FH-ingar eru að fá háðulega útreið á heimavelli. Munurinn nú er aðeins 10 mörk en Akureyringar hafa mest náð 12 marka forskoti. Sveinbjörn frábær í marki Akureyrar. Hann hefur varið 25 skot.

45. Akureyringar hafa tögl og haldir og mikið þarf að breytast hjá FH ef liðið ætlar að snúa þessum leik upp í sigur. Akureyringar hafa leikið hreint frábærlega í síðari hálfleik. Staðan er 25:19, fyrir norðanmenn.

38,30 Kristján Arason, þjálfari FH, tekur leikhlé. Leikur liðsins hefur verið í molum það sem af er síðari hálfleik og fyrir vikið leika Akureyringar við hvern sinn fingur. Staðan er 21:16, Akureyri í vil.

35. Akureyringar byrja síðari hálfleik af krafti. Sveinbjörn ver vel í markinu en sóknarleikur FH hefur ekki verið burðugur. Sóknir stuttar og og endað fremur á snubbóttann hátt eftir nokkrar sekúndur. Þá tókst FH-ingum ekki að nýta sér liðsmuninn áðan þegar þeir voru einum manni fleiri. Reyndar er það ekki fyrsta sinn sem Akureyringar halda jöfnu einum færri. Staðan er 18:14 fyrir Akureyri.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Akureyringar eru tveimur mörkum yfir, 15:13. Sveinbjörn Pétursson hefur varið vel í marki Akureyrar og haldið skyttum FH niðri. Guðlaugur Arnarsson hefur tvisvar verið vísað af leikvelli og gæti það sett strik í reikning Akureyringar í síðari hálfleik því hann er sá sem bindur vörn liðsins saman. Varnarleikur Akureyrar hefur verið góður.
Ólafur Gústafsson er markahæstur hjá FH með fjögur mörk. Ólafur Guðmundsson hefur skorað þrjú mörk, Logi Geirsson og Ásbjörn Friðriksson tvö mörk hvor. Bjarni Fritzson, fyrrverandi FH-ingur, er markahæstur hjá Akureyri með sex mörk. Oddur Gretarsson með með þrjú mörk og Heimir Örn Árnason og Guðmundur Hólmar Helgason tvö mörk hvor.
Sveinbjörn Pétursson hefur varið 12 skot í marki Akureyrar. Pálmar Pétursson tvö í marki FH.

28. Tvær mínútur og 20 sekúndur til hálfleiks. FH-ingar taka leikhlé. Akureyringar hafa skorað þrjú síðustu mörkin og eru yfir, 14:12. Sóknarleikur FH hefur ekki verið sannfærandi síðustu mínútur og öflugir leikmenn gert tóma dellu.

23. Akureyringum hefur tekist að jafna metin með mikill seiglu. Þeir hafa í tvígang verið þremur mörkum undir. Varnarleikur þeirra er afar góður og þá fer Sveinbjörn á kostum í markinu. Hann hefur varið 11 skot. Staðan er 11:11.

15. FH-ingar tveimur mörkum yfir, 8:6. Ólafur Gústafsson hefur farið á kostum síðustu mínútur og skorað helming marka FH með þrumuskotum.

10. Leikurinn fer fjörlega af stað en nokkuð um mistök. Spennan greinilega nokkur í leikmönnum. Sveinbjörn hefur varið 5 skot í marki Akureyrar.  Staðan er 6:4, fyrir FH sem skorað hafa þrjú síðustu mörkin.

3. Bjarni Fritzson skorar fyrsta mark leiksins eftir hraðaupphlaup. Tvær sóknir FH höfðu áður runnið út í sandinn og ein hjá Akureyringum.

Baldvin Þorsteinsson er í fyrsta sinn í leikmannahópi FH eftir að hann skipti úr Val í haust.  Baldvin byrjar inn á í vinstra horninu.

Dómarar leiksins eru Hafsteinn Ingibergsson og Gísli H. Jóhannsson.

Mjög fáir áhorfendur eru mættir nú fimm mínútum áður en flautað verður til leiks á þessum toppslag. Á að giska 300 manns eru á áhorfendapöllunum. Greinilegt er að þessi leiktími hentar ekki fólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert