Fyrsti sigur Akureyrar á tímabilinu

Geir Guðmundsson Akureyringur reynir skot að marki Aftureldingar í kvöld.
Geir Guðmundsson Akureyringur reynir skot að marki Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Golli

Afturelding og Akureyri áttust við í fyrsta leik úrvalsdeildar karla í handknattleik, N1-deildarinnar, í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ klukkan 18.30. Akureyri vann öruggan ellefu marka sigur 31:20. Það var aðeins í upphafi sem Afturelding ógnaði ríkjandi deildarmeisturum. Staðan í hálfleik var 16:10 Akureyri í vil.

Markahæstir hjá Akureyri voru Oddur Gretarsson með 9,þar af 3 úr vítum, Guðmundur Hólmar Helgason 5 og þrír leikmenn með fjögur mörk. Hjá Aftureldingu var Jóhann Jóhannsson markahæstur með 5 en Þrándur Gíslason kom næstur með 4 mörk. Hafþór Einarsson varði 14 skot þar af eitt víti og Sveinbjörn Pétursson 13 hjá gestunum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Lið Aftureldingar: Markm; Davíð Svansson, Hafþór Einarsson. Aðrir leikm; Þrándur Gíslason, Hilmar Stefánsson, Helgi Héðinsson, Eyþór Vestmann, Böðvar Ásgeirsson, Einar Héðinsson, Sverrir Hermansson, Pétur Júníusson, Mark Hopkins, Jóhann Jóhannsson, Jón Andri Helgason, Þorlákur Sigurjónsson, Daníal Jónsson.

Lið Akureyrar: Markm; Sveinbjörn Pétursson, Stefán Guðnason. Aðrir leikm; Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Ásgeir Jóhann Kristinsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Hlynur Matthíasson, Bergvin Gíslason, Heiðar Þór Aðalsteinsson, Hörður Fannar Sigþórsson.

57. Áhyggjuefni fyrir Akureyri en Heimir Örn þarf að fara af velli vegna hnémeiðsla og hann virðist þjáður. Staðan 20:30.

55. Leikhlé Atla virðist hafa skilað tilætluðum árangri en staðan er nú 20:28 þegar fimm mínútur eru eftir. Mikið þarf að gerast svo gestirnir fari ekki með stigin tvö til Akureyrar.

50. Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar tekur leikhlé þegar 10 mínútur eru eftir en staðan er 18:24. Greinilegt er að hann vill bæta sóknarleikinn sem verið hefur hugmyndasnauður undanfarnar mínútur. Tvö mörk er uppskeran síðustu tíu mínúturnar. Leikmenn Aftureldingar þurfa að nýta sér það en eru því miður oft að tapa boltanum í sókninni á klaufalegan hátt.

45. Síðustu fimm mínúturnar hafa liðin aðeins skorað eitt mark hvort, staðan 16:23.

40. Bæði lið skora til skiptis og nú fer minna fyrir markvörðunum en í fyrri hálfleik. Staðan 15:22. Davíð Svansson kom inná til að freista þess að verja vítakast frá Oddi en þetta er fyrsti leikur Davíðs fyrir Aftureldingu í langan tíma en hann hefur leikið erlendis.

35. Eins og í fyrri hálfleik voru það heimamenn sem byrjuðu betur og skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks. Staðan 12:18 og Heimir Örn Árnason kominn inná hjá Akureyri.

32. Það var ekki mikið liðið af seinni hálfleik þegar einn liðsmanna Akureyrar tók sig til og ældi á varamannabekknum. Ég þori ekki að fullyrða hver það var en Guðmundur Hólmar hljóp út af og skömmu seinna út um neyðarútgang. Hann liggur sterklega undir grun.

30. Hálfleikur og staðan er 10:16, Akureyri í vil. Afturelding byrjaði leikinn af krafti og komst meðal annars í 2:0. Akureyringar hafa smátt og smátt verið að finna rétta taktinn bæði í vörn og sókn og forysta þeirra í hálfleik er alls ekki ósanngjörn. Vörn þeirra hefur verið góð síðari hluta hálfleiksins og þar fyrir aftan stendur Sveinbjörn öruggur með átta skot varinn. Hafþór Einarsson hefur varið níu skot hjá Aftureldingu, þar á meðal eitt víti. Markahæstir hjá heimamönnum eru Þrándur Gíslason með þrjú og Jóhann Jóhannsson með tvö. Hjá Akureyri hafa Bjarni Fritzson og Oddur Gretarsson báðir skorað fjögur mörk.

25. Frá því staðan var 7:7 hafa leikmenn Akureyrar skorað 6 mörk en heimamenn aðeins eitt. Staðan því 8:13 og gestirnir að ná yfirhöndinni.

21. Gestirnir frá Akureyri hafa náð þriggja marka forskoti 7:10. Fremstur í flokki síðustu mínútur hjá þeim hefur verið Guðmundur Hólmar Helgason sem skorað hefur tvö fyrstu mörkin sín í leiknum á þessum kafla.

15. Þegar fyrri hálfleikur er hálfnaður er staðan jöfn 7:7. Eins og staðan gefur til kynna er mikið jafnræði með liðunum. Heimir Örn Árnason fyrirliði liðsins er á bekknum en hann hefur verið að glíma við meiðsl að undanförnu. Jón Heiðar Sigurðsson stjórnar leik gestanna í hans stað. Jóhann Jóhannsson er atkvæðamestur heimamanna það sem af er með tvö mörk. Hjá Akureyri hafa þrír skorað tvö mörk, Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson og Oddur Grétarsson.

10. Gestirnir hafa náð frumkvæðinu en staðan er 4:5. Markverðirnir eru þó í aðalhlutverki eins og er og þá sérstaklega Hafþór Einarsson hjá Aftureldingu, sem hefur varið fimm skot.

5. Það var Pétur Júníusson sem skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins og það eftir tæpar tvær mínútur. Akureyringar fóru illa með fyrstu sóknir sínar og reyndist gamli liðsfélagi þeirra Hafþór Einarsson þeim erfiður. Afturelding komst í 2:0 áður en Bjarni Fritzson skoraði fyrsta mark Akureyrar eftir fjórar mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert