Dræm stigasöfnun kom á óvart

Oddur Gretarsson
Oddur Gretarsson mbl.is/Golli

Morgunblaðið fékk að trufla Odd Gretarsson, leikmann Akureyrar, þar sem hann var að sinna börnunum á leikskólanum Naustatjörn þar sem hann vinnur ásamt liðsfélaga sínum Jóni Heiðari Magnússyni.

„Það er mjög gaman, við byrjuðum hérna í haust,“ sagði Oddur spurður um það hvernig væri að vinna með börnum. Hann er þó ekki bara að starfa með sér áður ókunnugum börnum því liðsfélagar hans Heimir Örn Árnason og Guðlaugur Arnarsson eiga tvo stráka á deildinni hans Odds.

„Þeir eru ótrúlegir og æfa bæði handbolta og fótbolta. Þá þekkja þeir nöfnin á öllum leikmönnunum bæði í handboltanum og fótboltanum þrátt fyrir að vera aðeins fjögurra og fimm ára.“

Litlu pjakkarnir gátu verið ánægðir með Odd á fimmtudaginn þegar hann fór á kostum gegn Aftureldingu í 8. umferð N1-deildarinnar í handknattleik. Oddur skoraði ellefu mörk og er að þessu sinni maður umferðarinnar að mati Morgunblaðsins.

„Við erum búnir að eiga tvo góða leiki í röð. Það má hinsvegar ekki gleyma því að þetta voru tvö neðstu liðin sem við unnum. Ef við ætlum okkur í úrslitakeppnina sem við stefnum að þá þurfum við líka að vinna þessi lið sem eru fyrir ofan okkur. Það þýðir ekki að stæra sig af því að taka stig á heimavelli gegn liðunum fyrir neðan okkur,“ sagði Oddur um gott gengi Akureyrar að undanförnu.

Nánar er rætt við Odd í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er einnig lið umferðinnar að finna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert