Jafntefli í Kaplakrika

Andri Berg Haraldsson reynir skot að marki Akureyrar í leiknum …
Andri Berg Haraldsson reynir skot að marki Akureyrar í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

FH og Akureyri skildu jöfn, 29:29, í Kaplakrika í kvöld í N1-deild karla í handknattleik. Mikill hasar var á síðustu mínútunni. Tveir leikmenn fengu rautt spjald og Stefán Guðnason, markvörður Akureyrar, varði vítakast frá Þorkeli Magnússyni, FH, þegar átta sekúndur voru eftir.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu á mbl.is.

Gangur leiksins: 1:0, 1:2, 2:5, 4:9, 7:11, 12:11, 12:13, 14:13, 14:14, 14:15, 18:17, 20:19, 24:23, 26:24, 26:28, 28:28, 28:29, 29:29.

Mörk FH: Ólafur Gústafsson 8, Þorkell Magnússon 8/5, Andri Berg Haraldsson 6, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Sigurður Ágústsson 2, Halldór Guðjónsson 1, Hjalti Pálmason 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 16/1 (þar af 6/1 aftur til mótherja).
Utan vallar: 14 mínútur, þar af fékk Ari Magnús beint rautt spjald sex sekúndum fyrir leikslok.
Mörk Akureyrar: Bjarni Ftitzson 8/2, Guðmundur Hólmar Helgason 8, Oddur Gretarsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13 (þar af 4 til mótherja). Stefán Guðnason 4/1.
Utan vallar: 14 mínútur, þar af fékk Heimir rautt á 57. mín. við þriðju brottvísun og Heiðar Þór Aðalsteinsson beint rautt spjald átta sek. fyrir leikslok.

59. FH hefur jafnað metin, 29:29, og ein mínúta eftir. Akureyri tekur leikhlé þegar 40 sekúndur eru eftir.

54. Skjótt hafa skipast veður í lofti. FH var komið með tveggja marka forskot, 26:24, í fyrsta sinn í leiknum. Nú hefur Akureyri skorað fjögur mörk í röð og komist yfir, 28:26.  Norðanmenn nýttu sér vel að vera manni fleiri um tíma eftir að FH misstu mann af velli fyrir engar sakir.  Bjarni Fritzson hefur verið drjúgur í sóknarleik Akureyrar síðustu mínútur og skorað þrjú af þessu fjórum mörkum.

45. Enn er staðan jöfn í Kaplakrika, 23:23. Heimir Örn var að fá annan brottrekstur sinn í leiknum. Guðmundur Hólmar heldur sóknarleik Akureyrar uppi.

40. Leikurinn er áfram í járnum. FH með tvo leikmenn í skammarkróknum núna og Akureyri einn. Það er hart tekist á, á báða bóga. FH er marki yfir, 20:19.

35. Síðari hálfleikur fer fjörlega af stað. Akureyringar hafa þó átt erfitt að með að skapa sér færi þegar stillt er upp á teig.

31. Bergvin skorar fyrsta mark síðari hálfleiks. Hann kastaði sér inn úr hægra horninu og sendi boltann framhjá Daníel marki FH.

30. Staðan er jöfn eftir fyrri hálfleik, 14:14. Eftir slakan leik fyrsta stundarfjórðunginn þá hafa leikmenn FH tekið sig saman í andlitinu og bætt sinn leik, jafnt í vörn sem sókn og náð að jafna metin og komast í tvígang yfir, 12:11 og 14:13. Það stefnir í hörkuleik í síðari hálfleik ef fram heldur sem horfir.
Þorkell hefur skorað sex mörk fyrir FH, þar af fjögur úr vítakasti. Andri Berg og Ari Magnús hafa skorað tvö mörk hvor. Daníel Freyr hefur varið sjö skot.
Hörður Fannar er markahæstur hjá Akureyri með fjögur mörk, Heimir Örn og Guðmundur Hólmar hafa skorað þrjú mörk hvor. Sveinbjörn hefur varið 12 skot í markinu.

23. FH hefur jafnað metin, 11:11. Sóknarleikur Akureyringa hefur ekki verið góður síðustu mínútur, bæði hafa FH-ingar tekið Heimi Örn úr umferð og síðan hafa Akureyringar verið manni færri um tíma. Síðast en ekki síst hefur Daníel Freyr vaknað í marki FH og um það munar svo sannarlega.

18.  FH-ingar hafa skorað tvö mörk í röð og minnkað muninn í tvö mörk, 11:9, fyrir Akureyri. Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, tekur leikhlé.

15. FH-ingar hafa lítið skánað við yfirhalninguna frá þjálfurunum í leikhléinu áðan. Einn leikmaður frá hvoru liði er í skammarkróknum í augnablikinu. Staðan er 11:7, fyrir Akureyri.

11. FH tekur leikhlé enda hefur ekkert gengið, hvorki í vörn né sókn auk þess sem markvarsla hefur ekki verið merkjanleg. Þjálfarar Íslandsmeistarana freista þess að blása sínum mönnum baráttuanda í brjóst. Staðan er 9:4, fyrir Akureyri.

5. Akureyringar byrja af miklum krafti. Sveinbjörn er vel með á nótunum og sóknarleikur og vörn er góð. FH-ingar hafa gert sig seka um flumbrugang í sóknarleiknum. Staðan er 4:2, fyrir Akureyri.

Oft hafa verið fleiri áhorfendur í Kaplakrika en að þessu sinni hverju sem um er að kenna.

Baldvin Þorsteinsson kemur inn í lið FH að þessu sinni eftir fjarveru. Örn Ingi Bjarkason og Ragnar Jóhannsson eru hinsvegar enn fjarri góðu gamni.

Lið FH: Daníel Freyr Andrésson (m), Pálmar Pétursson (m) - Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Hjalti Pálmason, Atli Hjörvar Einarsson, Ólafur Gústafsson, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Halldór Guðjónsson, Atli Rúnar Steinþórsson, Bjarki Jónsson, Baldvin Þorsteinsson, Daníel Hansson.

Lið Akureyrar: Sveinbjörn Pétursson (m), Stefán Guðnason (m) - Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn  Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Gíslason, Halldór Tryggvason, Jóhann Gunnarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.

Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert