Akureyringar ekki í vandræðum með Gróttu

Bjarni Fritzson skoraði 12 mörk í kvöld.
Bjarni Fritzson skoraði 12 mörk í kvöld. mbl.is/Golli

Akureyri vann í kvöld öruggan níu marka sigur á botnliði Gróttu, 28:19, í N1-deild karla í handknattleik. Staða Akureyringa í deildinni verður skýrari síðar í kvöld en þeir eru nú með 16 stig eftir 13 leiki. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Mörk Gróttu: Jóhann Gísli Jóhannesson 5, Benedikt Reynir Kristinsson 3, Árni Benedikt Árnason 2, Þórir Jökull Finnbogason 2/2, Þorgrímur Ólafsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Davíð Hlöðversson 2, Kristján Orri Jóhannsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 16 (þar af 6 til mótherja), Kristján Ingi Kristjánsson 1 (til mótherja).

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 12/6, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Oddur Gretarsson 3, Bergvin Gíslason 3, Geir Guðmundsson 3, Daníel Einarsson 2, Guðmundur Hólmar Helgason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 16 (þar af 7 til mótherja), Stefán Guðnason 2/1.

60. Leik lokið. Það var mikill losarabragur á leiknum í lokin en Akureyringar stóðu uppi með níu marka sigur, 28:19.

52. Akureyringar eru að sigla sigrinum í höfn. Munurinn er nú sex mörk, 22:16. Sveinbjörn Pétursson er í góðum gír í marki gestanna og var að verja sitt fimmtánda skot.

44. Akureyri náði mest sjö marka forystu, 19:12, en Grótta er nú með boltann og á tækifæri að minnka muninn í fjögur mörk að nýju. Oddur Gretarsson var að skora sín fyrstu tvö mörk fyrir Akureyringa.

37. Enn munar fjórum mörkum á liðunum, 16:12. Akureyri er hins vegar manni færri næstu tvær mínútur vegna einhvers misskilnings leikmanna liðsins, sem ætluðu að stilla upp sjö manna vörn.

30. Hálfleikur. Akureyringar hafa ekki beint átt stjörnuleik hér í fyrri hálfleik en hafa engu að síður fjögurra marka forskot, 13:9. Lárus Helgi Ólafsson hefur verið frábær í marki Gróttu og varið 12 skot en sóknarleikur liðsins er ekki upp á marga fiska auk þess sem Sveinbjörn Pétursson hefur staðið fyrir sínu í marki Akureyrar og varið 9 skot. Bjarni Fritzson er einn um að hafa skorað fleiri en tvö mörk í hálfleiknum en hann er kominn með 7 fyrir Akureyri, þar af 3 úr vítum.

25. Grótta fékk tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk eftir að Lárus Helgi varði sitt níunda skot en glutraði því. Staðan er 11:8 nú þegar fimm mínútur eru eftir af fyrri hálfleiknum.

18. Línumaðurinn Ásgeir Jónsson, sem kom til Akureyrar frá Aftureldingu fyrir leiktíðina, var að koma inná og spila sínar fyrstu mínútur í vetur ef mér skjátlast ekki. Staðan er 10:6 Akureyri í vil en Bjarni Fritzson var að skora sitt fjórða mark.

12. Stefán Guðnason varamarkvörður Akureyringa var að koma inná og verja víti, og staðan því 7:4 gestunum í vil. Markverðirnir hafa verið að verja vel en varnarmenn Gróttu mættu vera betur vakandi fyrir því að ná frákastinu þegar Lárus Helgi nær til boltans.

5. Hörður Fannar Sigþórsson var að koma Akureyri í 3:1 með marki af línunni. Hann leikur fremst í 5+1 vörn gestanna. Fyrirliði þeirra, Heimir Örn Árnason, er kappklæddur á bekknum og virðist ekki eiga að koma inná nema nauðsyn krefji. Oddur Gretarsson stýrir sóknarleiknum.

2. Leikurinn er hafinn og hann byrjaði ekki vel fyrir Gróttu sem fékk dæmd á sig skref og Akureyri skoraði svo í kjölfarið úr fyrstu sókn sinni þó svo að Lárus Helgi Ólafsson næði að verja tvívegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert