Tvö rauð í sigri Akureyrar á Nesinu

Árni Benedikt Árnason og félagar hans í Gróttu mæta Akureyri …
Árni Benedikt Árnason og félagar hans í Gróttu mæta Akureyri annað skiptið í röð í deildinni. mbl.is

Akureyri vann Gróttu öðru sinni á einni viku þegar liðin mættust í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. Lokatölur voru 29:25 en þegar ellefu mínútur voru eftir var staðan jöfn 22:22. Leikmenn Gróttu geta verið ánægðir með varnarleik sinn í 50 mínútur í kvöld en það var ekki nóg að þessu sinni.

Akureyri er því komið með 18 stig í deildinni og fór upp fyrir Fram í 4. sætið en þeir eru nú að spila við topplið deildarinnar Hauka. Grótta er enn á botninum með eitt stig. 

Markahæstir hjá Akureyri voru Oddur Gretarsson með 11 mörk, Bjarni Fritzson skoraði 5 og Daníel Einarsson fjögur. Sveinbjörn Pétursson varði 17 skot í markinu. Hjá Gróttu var það Þorgrímur Smári Ólafsson sem skoraði mest eða 6 en næstur honum kom Vilhjálmur Geir Hauksson ungur og efnilegur leikmaður sem stóð sig vel í kvöld með fjögur mörk. Lárus Helgi Ólafsson varði 12 skot.

Lið Gróttu: Lárus Helgi Ólafsson (m), Kristján Ingi Kristjánsson (m), Ágúst Birgisson, Árni Benedikt Árnason, Þórir Jökull Finnbogason, Davíð Örn Hlöðversson, Benedikt Reynir Kristinsson, Jóhann Gísli Jóhannesson, Kristján Orri Jóhannsson, Þorgrímur Smári Ólafsson, Aron Valur Jóhannsson, Óttar Steingrímsson, Þráinn Orri Jónsson, Ólafur Ægir Ólafsson. Þjálfari er Guðfinnur Arnar Kristmannsson.

Lið Akureyrar: Sveinbjörn Pétursson (m), Stefán Guðnason (m), Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Þór Gíslason, Daníel Örn Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson. Þjálfari er Atli Hilmarsson.

60. Leik lokið með sigri Akureyrar 29:25.

57. Bekkurinn hjá Gróttu fær gult spjald fyrir mótmæli og við það hendir Jóhann Gísli flösku inn á völlinn en hann hafði sest upp í stúku eftir að hann fékk rauða spjaldið áðan. Þetta atvik gæti farið á skýrslu dómaranna. Staðan er 24:28.

55. Jóhann Gísli var að fá tveggja mínútna brottvísun hjá Gróttu þegar staðan er 24:26. Til að bæta gráu ofan á svart fékk hann svo aðrar tvær mínútur fyrir mótmæli og þar með rautt en þetta var þriðja brottvísunin. Við þetta minnkuðu möguleikar Gróttu til muna.

52. Grótta jafnaði metin í 22:22 þegar 11 mínútur voru eftir en nú þegar 8 mínútur eru eftir er staðan 22:25 en Akureyri búið að skora síðustu þrjú mörkin og Sveinbjörn lokað markinu enda vörnin mun betri núna hjá gestunum.

48. Atli Hilmarsson horfir upp á sitt lið missa niður forystuna á skömmum tíma og tekur leikhlé þegar staðan er 21:22 Akureyri í vil. Ekkert gengur hjá gestunum á meðan Grótta nýtir sín færi og spilar góða vörn. Það eru tólf mínútur eftir og allt getur gerst.

45. Enn fjúka leikmenn Akureyrar útaf en nú var það Ásgeir sem fékk tveggja mínútna brottvísun. Heimamenn nýta sér þetta en staðan er 19:21 og munurinn ekki verið minni í síðari hálfleik.

40. Í stöðunni 14:19 fær Hörður Fannar rautt spjald hjá Akureyri. Hann ýtti í Jóhann Gísla sem var kominn einn í gegn í hraðaupphlaupi. Þetta nokkuð strangur dómur að mati undirritaðs enda leikurinn ekki búinn að vera grófur og brotið það ekki heldur, tvær mínútur hefði verið sanngjarnt og eðlilegt. Þeir félagar Jónas og Ingvar töluðu þó saman áður en þeir lyftu spjaldinu.

39. Staðan er 13:18 gestunum í vil og svipaður munur helst á liðinum og var í hálfleik. Það var góður kafli Akureyringanna undir lok fyrri hálfleiks sem gerir nú gæfumuninn. Það eru sömu rólegheitin yfir mönnum hér á Nesinu!

32. Þrátt fyrir að vera einum manni færri eftir að Guðlaugi var vikið af velli nær Akureyri að skora fyrsta markið og staðan því 10:15.

31. Seinni hálfleikur er hafinn en bæði lið voru klár í slaginn löngu áður en dómararnir Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson komu úr kaffinu í hálfleik. Þeir létu semsagt bíða eftir sér, en þeir hafa dæmt þennan leik mjög vel enda ekki erfiður að dæma. Grótta byrjar með boltann.

30. Staðan í hálfleik er 10:14 gestunum frá Akureyri í vil. Leikhléið sem Atli þjálfari þeirra tók svínvirkaði og leikmenn Akureyrar komu mun ákveðnari til leiks. Það sama er ekki hægt að segja um Gróttu sem fyrir það hafði spilað mjög vel. Eitt mark á sex mínútum var hinsvegar uppskeran síðustu mínúturnar í seinni hálfleik.
Oddur er langmarkahæstur gestanna með 5 mörk en næstur honum kemur Bjarni með 3 þar af eitt úr víti. SVeinbjörn hefur varið 10 skot í markinu. Hjá heimamönnum er það Þorgrímur Smári sem hefur skorað mest eða 3 mörk og Benedikt Reynir er með tvö. Lárus er búinn að verja 9 skot þar af eitt víti.

24. Grótta jafnar metin 9:9 og þar með tekur Atli, þjálfari Akureyrar leikhlé. Hann vill örugglega skerpa á leik sinna manna sem hefur verið lélegur. Grótta hefur heldur ekki spilað vel en síðustu mínútur hafa þó verið mun betri hjá heimamönnum en gestunum.

20. Munurinn er orðinn eitt mark 7:8, gestunum frá Akureyri í vil. Það heyrðist kallað úr vörn Akureyrar áðan; „Strákar þetta er leikur,“ og var þar líklega átt við stemninguna já eða skort á henni. Það lýsir einna helst hraðanum og baráttunni hjá leikmönnum.

14. Staðan þegar fyrri hálfleikur er svo gott sem hálfnaður er 5:7. Það er ekki mikið skorað og undarlegur doði yfir leikmönnum. Það hjálpar ekki til að mjög fáir áhorfendur eru á leiknum og enginn kynnir á hljóðnemanum. Það eru helst markverðirnir, Lárus hjá Gróttu og Sveinbjörn hjá Akureyri sem standa vaktina vel enda skotin mörg hver ekki góð.

9. Þá er loksins komið netsamband hér á Nesinu en staðan er 2:4 Akureyri í vil. Gestirnir byrja þetta mun betur og eru með verðskuldaða tveggja marka forystu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert