Valur varð í dag bikarmeistari í handknattleik kvenna í fyrsta sinn frá árinu 2000 eftir öruggan sigur á ÍBV í úrslitaleik í dag, 27:18. Grunninn lagði Valur á fyrsta stundarfjórðungi leiksins þegar meistararnir komust í 8:2 og þeir litu ekki um öxl eftir það. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Mörk Vals: Kristín Guðmundsdóttir 6/1, Hrafnhildur Skúladóttir 5, Karólína Bæhrenz Lárusdóttir 4, Þorgerður Anna Atladóttir 4, Dagný Skúladóttir 3, Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Ágústa Edda Björnsdóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 17/2 (þar af 3 til mótherja).
Mörk ÍBV: Ivana Mladenovic 6, Marijana Trbojevic 4, Ester Óskarsdóttir 3, Gorgeta Grigore 2, Aníta Elíasdóttir 1, Drífa Þorvaldsdóttir 1, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 1.
Varin skot: Florentina Stanciu 17/1 (þar af 2 til mótherja).
60. Leik lokið. Lokastaðan 27:18 Val í vil. Valskonur juku muninn duglega á ný áður en yfir lauk og sýndu og sönnuðu nákvæmlega hversu vel þær eru komnar að titlinum.
53. Staðan er 21:15 Val í vil. Munurinn var einfaldlega orðinn of mikill fyrir þetta góða áhlaup Eyjaliðsins. Valsarar geta sótt kampavínið í kælinn.
47. Staðan er 19:12 Val í vil. Núna loksins er ÍBV-liðið að sýna úr hverju það er gert en líklega er það allt of seint. Það hefur þó skorað fjögur síðustu mörk leiksins þar sem Florentina, Ester og línumaðurinn Ivana Mladenovic hafa verið í aðalhlutverkum.
41. Staðan er 19:8 Val í vil. Valur er hreinlega búinn að gera út um leikinn með frábærum leikkafla. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var að skora sitt fyrsta mark en hún hefur spilað frábærlega, sérstaklega í vörninni þar sem hún hefur varið nokkur skot með góðri hávörn.
36. Staðan er 15:7 Val í vil. Florentina byrjar seinni hálfleikinn frábærlega í marki ÍBV en það dugar skammt því liðinu gengur enn ekkert að sækja gegn framliggjandi vörn Valsara.
30. Hálfleikur. Staðan er 13:6 Val í vil. Kristín Guðmundsdóttir skoraði síðasta mark hálfleiksins sem var jafnframt fyrsta markið úr vítakasti eftir að fjögur höfðu farið í súginn. Taugarnar sjálfsagt þandar. ÍBV skoraði fyrstu tvö mörk hálfleiksins en það voru jafnframt einu mörk liðsins á fyrsta stundarfjórðungnum gegn átta mörkum Valskvenna sem hafa ekki hleypt Eyjaliðinu aftur inn í leikinn.
Karólína, Hrafnhildur og Þorgerður Anna hafa skorað 3 mörk hver fyrir Val en Gorgeta Grigore 2 fyrir ÍBV. Markverðir liðanna hafa staðið vel fyrir sínu og varið um 8 skot hvor.
26. Staðan er 12:5 Val í vil. Valskonur láta engan bilbug á sér finna. Vörnin er svakaleg og flestar skila sínu vel í sóknarleiknum. Þar hafa Þorgerður Anna, Hrafnhildur og Karólína skorað 3 mörk hver. Sóknarleikur ÍBV er hins vegar afar tilviljanakenndur.
17. Staðan er 9:3 Val í vil. Guðný Jenný Ásmundsdóttir var að verja sitt annað vítakast í kjölfarið á því að Hrafnhildur Skúladóttir fékk fyrstu brottvísun leiksins fyrir að fara í skothönd Þórsteinu Sigurbjörnsdóttur í dauðafæri. Þórsteina hafði skömmu áður bætt úr markaþurrð ÍBV með glæsilegu einstaklingsframtaki.
14. Staðan er 8:2 Val í vil. Eftir tvö mörk á fyrstu tveimur mínútunum hafa Eyjakonur nú ekki skorað í 12 mínútur og reyndar ekkert verið svo nálægt því nema þegar vítakast fór í súginn. Vörnin er hins vegar orðin betri eftir leikhlé á 8. mínútu, og Valur aðeins skorað eitt mark síðan þá.
8. Staðan er 7:2 Val í vil. Frábær byrjun hjá Íslandsmeisturum Vals. Þær spila mjög ákveðna framliggjandi vörn sem ÍBV gengur illa að sækja gegn. Svo er sótt hratt og mörkin orðin sjö á rétt rúmum sjö mínútum.
5. Staðan er 4:2 Val í vil. Það er brjálaður hraði í þessum leik á upphafsmínútunum. ÍBV komst í 2:0 en Valur svaraði strax með fjórum mörkum í röð. Hrafnhildur Skúladóttir byrjar vel og er kominn með tvö eftir hraðar sóknir.
0. Jæja, þá er leikurinn að hefjast. Góða skemmtun.
0. Tíu mínútur í leik og nú er verið að kynna leikmenn til leiks með látum. Neðri hlutinn af áhorfendapöllunum er orðinn fallega litaður í rauðum lit Vals og hvítum lit ÍBV.
0. Bæði lið geta teflt fram öllum sínum sterkustu leikmönnum í dag.
0. Valur hefur verið í bikarúrslitum síðustu tvö ár en tapað í bæði skiptin fyrir Fram. Liðið vann bikarinn síðast árið 2000 þegar það hafði betur gegn Gróttu/KR. ÍBV spilaði síðast um bikarinn árið 2006 en tapaði þá fyrir Haukum. Liðið varð síðast meistari 2004 með því að vinna Hauka.
0. Þó liðin séu hlið við hlið í N1-deildinni, í 2. og 3. sæti, munar átta stigum á þeim þar en ÍBV á þó leik til góða. Valur hefur unnið báðar viðureignir liðanna í vetur, fyrst 33:20 að Hlíðarenda og svo 39:32 í Eyjum fyrir skömmu en sá leikur var þó jafn fram á lokamínúturnar.
0. Það er ekki laust við að maður sé með fiðring í maganum nú þegar hálftími er til leiks. Eflaust er hann meiri hjá stuðningsmönnum og hvað þá leikmönnunum sjálfum. Þessa stundina eru leikmenn að hita upp með þversendingum yfir völlinn. Fjölmiðlar eru þannig staðsettir að mín ágæta fartölva hefur oft verið öruggari um eigið líf en hún hefur sloppið með skrekkinn hingað til.
0. Góðan dag og velkomin í beina textalýsingu úr Laugardalshöllinni á þessum bikarúrslitadegi. Kvennalið ÍBV og Vals ríða á vaðið kl. 13:30 og kl. 16 mætast Haukar og Fram.
Lið ÍBV: Berglind Dúna Sigurðardóttir, Florentina Stanciu, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir, Hildur Dögg Jónsdóttir, Ivana Mladenovic, Aníta Elíasdóttir, Drífa Þorvaldsdóttir, Rakel Hlynsdóttir, Guðbjörg Guðmannsdóttir, Georgeta Grigore, Kristrún Ósk Hlynsdóttir, Ester Óskarsdóttir, Sandra Gísladóttir, Marijana Trbojevic.
Lið Vals: Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Sunneva Einarsdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir, Rebekka Rut Skúladóttir, Hildur Marín Andrésdóttir, Karólína Bæhrenz Lárusdóttir, Aðalheiður Hreinsdóttir, Dagný Skúladóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Þorgerður Anna Atladóttir, Arndís María Erlingsdóttir, Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir.
Þó liðin séu hlið við hlið í N1-deildinni, í 2. og 3. sæti, munar átta stigum á þeim þar en ÍBV á þó leik til góða. Valur hefur unnið báðar viðureignir liðanna í vetur, fyrst 33:20 að Hlíðarenda og svo 39:32 í Eyjum fyrir skömmu en sá leikur var þó jafn fram á lokamínúturnar.