Atli: Máttu ekki vinna þennan leik, bara næsta

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar og Guðmundur Hólmar Helgason.
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar og Guðmundur Hólmar Helgason. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við þurftum að hafa mikið fyrir þessum leik gegn góðu liði sem tapaði naumlega fyrir FH í síðasta leik,“  sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir 23:28 sigur í Mosfellsbænum í kvöld þegar leikið var í 16. umferð N1-deildar karla.  

„Mér finnst Afturelding hafa verið að bæta sig og er að nálgast sigur en við ætluðum ekki að verða fyrir því í dag, frekar að liðið vinni næsta leik og ég óska þeim alls hins besta.  Liðið hefur verið svo nálægt því að undanförnu, það vantar bara herslumuninn svo það verður að mæta í svona leik af fullum krafti.“

Heimir Örn Árnason náði bara að spila framan af og þá tók Oddur Gretarsson við stöðu leikstjórnanda.  „Ég þurfti aðeins að breyta til þegar Heimir Örn fór út af en Oddur hefur spilað á miðjunni í síðustu tveimur leikjum en leikur okkar riðlaðist ekki.  Varnarleikurinn var síðan betri í seinni hálfleik svo Afturelding þurfti að taka erfið skot eftir að hafa fengið opin skot fyrir hlé,“ bætti Atli við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert