Aron með Akureyringa í vasanum

Reynlsumennirnir Heimir Örn Árnason og Freyr Brynjarsson eigast við í …
Reynlsumennirnir Heimir Örn Árnason og Freyr Brynjarsson eigast við í viðureign Akureyrar og Hauka. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar höfðu mikla yfirburði þegar þeir tóku á móti Akureyri í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. Sigur þeirra var aldrei í verulegri hættu í seinni hálfleik en lokatölur voru 26:18. Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í marki Hauka og varði 23 skot og sá til þess að gestirnir voru orðnir hræddir við hann og mörk skotanna fóru því í stangirnar. Þá má ekki gleyma vörninni hjá Haukum sem var mjög góð og hjálpaði Aroni mikið.

Haukar fara með sigrinum á topp deildarinnar um stundarsakir hið minnsta en FH getur endurheimt sætið með sigri á Gróttu en sá leikur stendur yfir þegar þetta er skrifað. Markahæstir hjá Haukum voru þeir Stefán Rafn Sigurmannsson og Sveinn Þorgeirsson báðir með sex mörk.

Hjá Akureyri var það Bjarni Fritzson sem skoraði mest eða 6 mörk og Oddur Gretarsson var með fjögur. Sveinbjörn Pétursson varði 13 skot í markinu.

Fylgst er með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Lið Hauka: Aron Rafn Eðvarðsson (m), Birkir Ívar Guðmundsson (m), Tjörvi Þorgeirsson, Freyr Brynjarsson, Einar Pétur Pétursson, Þórður Rafn Guðmundsson, Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Jónatan Ingi Jónsson, Nemanja Malovic, Sveinn Þorgeirsson, Heimir Óli Heimisson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Gylfi Gylfason, Matthías Árni Ingimarsson.

Lið Akureyrar: Sveinbjörn Pétursson (m), Stefán Guðnason (m), Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Andri Snær Stefánsson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Gíslason, Daníel Örn Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.

55. Það er enn átta marka munur 24:16 en nýjustu tölur hjá Aroni eru 23 skot varin. Frammistaða getur vart orðið betri en hún hefur verið hér í kvöld!

50. Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar tekur leikhlé enda staðan orðin 22:14. Ég þarf ekkert að halda áfram að skrifa það að ekkert gangi upp í sóknarleik norðanmanna. Haukar geta hinsvegar verið mjög ánægðir með sinn leik og þeir ætla ekkert að slaka á þó staða þeirra sé orðin í meira lagi vænleg. Frábært svar þeirra við leiknum gegn Gróttu þar sem þeir töpuðu illa.

47. Enn vernsar staða gestanna en staðan er 19:13 eftir að Haukar bættu við tveimur mörkum. Allt bendir til þess að Haukar fari á toppinn um stundarsakir í það minnsta.

44. Staðan er 17:13 og Haukar enn með góð tök á gestunum. Aron Rafn er kominn með átján skot varin hjá Haukum og Stefán Rafn er markahæstur með fimm. Hjá Akureyri er það Bjarni sem virðist sá eini til að finna leiðina framhjá Aroni en hann er með fimm mörk.

38. 15:10 er staðan en Sveinbjörn markvörður gestanna var að fá tveggja mínútna brottvísun fyrir mótmæli en þetta var alltof strangur dómur. Hagur gestanna vænkast ekki við það.

35. Staðan er 13:9 og enn heldur Aron Rafn áfram að verja og eða leikmenn Akureyrar að skjóta í stangirnar.

31. Þá er seinni hálfleikurinn hafinn og getur Akureyri minnkað muninn í tvö mörk en þeir byrja í sókn.

30. Staðan í hálfleik er 10:7 heimamönnum í vil en það er verðskulduð forysta. Atli þjálfari gestanna hefur væntanlega í hyggju að skerpa á sóknarleiknum og reyna jafnframt að finna leið framhjá Aroni Rafni, markmanni Hauka, sem er með 12 skot varin. Leikmenn Akureyrar eru greinilega orðnir smeykir við hann og farnir að skjóta meira í stangirnar og framhjá markinu. Aron, þjálfari Hauka, getur verið nokkuð sáttur með þriggja marka forystu, sérstaklega ef mið er tekið af síðasta leik liðsins gegn Gróttu.
Tjörvi, Sveinn og Stefán Rafn hafa allir skorað 2 mörk í liði Hauka en Oddur er með þrjú hjá Akureyri og Heimir Örn tvö.

27. Staðan er 9:6 Haukum í vil þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik. Það er ekki neinu logið þegar sagt er að það sé doði og deyfð yfir leikmönnum beggja liða.

23. Staðan er enn 7:5 og Atli Hilmarsson tekur leikhlé. Aron Rafn markvörður Hauka ætlar að reynast Akureyri erfiður því hann er kominn með 12 skot varin á 23 mínútum. Frábær leikur hjá honum.

20. Það hefur lítið gengið hjá gestunum að koma boltanum í netið en sóknarleikurinn er aftur farinn að hökta. Hjá Haukum gengur hann hinsvegar betur en þó ekki eins vel og hann getur gert en staðan er 7:5.

15. Þetta er sannkallaður leikur markvarðanna því þeir eru báðir komnir með 7 skot en þegar annar þeirra ver þá virðist hinn ekki mega vera minni maður! Staðan er jöfn 4:4.

11. Heimir Örn skorar tvö mörk í röð fyrir gestina og breytir stöðunni í 4:3.

8. Ekkert gengur upp í sóknarleik Akureyrar og varnarleikurinn er langt því frá að vera góður. Það hafa heimamenn nýtt sér en staðan er 4:1. Aron Rafn byrjar einnig vel í marki Hauka og er kominn með fimm skot varin.

5. Haukar hafa skorað síðustu tvö mörk leiksins og breytt stöðunni í 2:1. Mesta athygli vekur þó dómgæsla þeirra Gísla og Hafsteins sem hafa í tvígang dæmt aukakast á Hauka fyrir afar litlar sakir. Aron Kristjánsson þjálfari Hauka er allt annað en sáttur og fékk gult spjald strax eftir tvær mínútur og 36 sekúndur.

2. Oddur skorar fyrsta mark Akureyrar og fyrsta mark leiksins, staðan 0:1.

1. Sveinbjörn ver skot frá Tjörva, Akureyri brunar fram völlinn en þar ver Aron Rafn skot Bjarna. Staðan því enn 0:0.

1. Haukar byrja í sókn en leikurinn er hafinn.

0. Akureyri hefur unnið síðustu fjóra andstæðinga sína í deildinni en Haukar hafa aðeins náð í þrjú stig í síðustu fjórum leikjum.

0. Tveir aðrir leikir hefjast klukkan 19.30 en það er viðureignir FH og Gróttu annars vegar og Aftureldingar og HK hinsvegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert