Sveinbjörn tryggði Akureyri sæti í úrslitakeppninni

Róbert Aron Hostert sækir að vörn Akureyrar.
Róbert Aron Hostert sækir að vörn Akureyrar. mbl.is/Ómar

Fram og Akureyri skildu jöfn í Safamýrinni í kvöld, 29:29, í næstsíðustu umferð N1-deildar karla í handknattleik eftir hnífjafnan leik. Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyringa varði lokaskot leiksins nokkrum sekúndum fyrir leikslok.

Úr því að HK og FH gerðu einnig jafntefli er staðan þannig að Akureyri er í 3. sæti með 25 stig og Fram í 5. sæti með 24 stig. Fram mætir HK í lokaumferðinni og Akureyri fær Val í heimsókn. HK er í 4. sæti með 24 stig.

Akureyri  fer þó alltaf í úrslitakeppnina því þó liðið myndi tapa fyrir Val gætu aldrei bæði HK og Fram farið uppfyrir norðanmenn vegna innbyrðis úrslita liðanna.

Fram verður að vinna leikinn gegn HK til að fara í úrslitakeppnina, jafntefli dugir liðinu ekki.

Mörk Fram: Jóhann Gunnar Einarsson 10/5, Róbert Aron Hostert 8, Einar Rafn Eiðsson 3, Sigurður Eggertsson 3, Ægir Hrafn Jónsson 3, Sigfús Páll Sigfússon 1, Stefán Baldvin Stefánsson 1.
Varin skot: Sebastían Alexandersson 6 (þar af 3 til mótherja), Magnús Gunnar Erlendsson 4 (þar af 3 til mótherja).

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Geir Guðmundsson 5, Heimir Örn Árnason 5, Oddur Gretarsson 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 11/1 (þar af 2 til mótherja).

60. Leik lokið. Jafntefli niðurstaðan. Sveinbjörn varði frá Stefáni Baldvini úr góðu færi í vinstra horninu og bjargaði stigi fyrir Akureyri.

60. Staðan er 29:29. Geir jafnaði með þrumuskoti fyrir Akureyri. 16 sekúndur eftir og Fram tekur leikhlé.

59. Staðan er 29:28 Fram í vil. Oddur skoraði úr hraðaupphlaupi og Akureyri vann boltann. Mínúta eftir.

58. Staðan er 29:27 Fram í vil. Liðin skora hratt og úr hverri sókn núna.

55. Staðan er 27:24 Fram í vil. Jóhann Gunnar var að skora sitt tíunda mark fyrir Framara sem eru með dýrmætan sigur innan seilingar.

52. Staðan er 25:22 Fram í vil. Akureyri var að taka leikhlé enda hefur leikurinn alveg snúist. Fram er nú með þriggja marka forskot og Hörður Fannar var auk þess að fá aðra brottvísun Akureyringa á skömmum tíma.

48. Staðan er 23:22 Fram í vil. Framarar skoruðu þrjú mörk í röð og komust yfir í fyrsta sin frá því í stöðunni 4:3. Athygli vekur að enn hafa aðeins fjórir leikmenn Akureyrar skorað í leiknum og kannski eru lykilmenn núna farnir að þreytast.

44. Staðan er 21:20 Akureyri í vil. Jóhann Gunnar fékk fyrstu brottvísun leiksins fyrir að skella Guðmundi Hólmari í gólfið þegar hann var að brjótast í gegnum vörn Akureyrar. Ég veit ekki alveg með samræmið í þessu. Manni færri skoruðu Framarar þó og Einar Rafn var að minnka muninn í 21:20 með sínu öðru marki í röð.

38. Staðan er 17:16 Akureyri í vil. Fram var að minnka muninn með marki Jóhanns Gunnars úr víti eftir að Róbert Aron hafði skollið illa á gólfinu í þriðja sinn í leiknum. Einar Jónsson þjálfari Fram er illur yfir því að enn hafi enginn í vörn Akureyrar fengið tveggja mínútna brottvísun.

34. Staðan er 16:14 Akureyri í vil. Jóhann Gunnar hafði tækifæri til að jafna úr hraðaupphlaupi en skaut framhjá og í staðinn skoraði Guðmundur Hólmar sitt fjórða mark fyrir Akureyri. Það var einhver misskilningur hjá mér að Einar Rafn yrði ekki með Fram í kvöld. Hann ku vera tæpur vegna meiðsla en byrjar seinni hálfleikinn.

30. Staðan í öðrum leikjum er þannig að HK er að vinna FH 17:12, Afturelding er að vinna Hauka 13:9 og Valur að vinna Gróttu 16:15. Staðan í deildinni miðað við þetta: 1. Haukar 27, 2. Akureyri 26, 3. HK 25, 4. FH 25, 5. Fram 23, 6. Valur 22.

30. Hálfleikur. Staðan er 14:13 Akureyri í vil. Hafi spennan verið mikil fyrir þennan leik þá hefur hún ekkert minnkað í þessum fyrri hálfleik. Akureyri hefur verið yfir lengst af en mest náð tveggja marka forskoti einu sinni í leiknum.
Bjarni Fritzson nýtti færin sín frábærlega og er kominn með 6 mörk fyrir Akureyri, Guðmundur Hólmar 3 og þeir Geir og Heimir Örn 2 mörk hvor. Sveinbjörn varði 8 skot í markinu.
Hjá Fram er Jóhann Gunnar markahæstur með 4 mörk en þeir Róbert Aron, Ægir Hrafn og Sigurður hafa gert 2 mörk hver, og Sigfús Páll og Stefán Baldvin eitt mark hvor. Magnús Gunnar Erlendsson kom inná í markið eftir 20 mínútna leik og varði 4 skot en Sebastian Alexandersson hafði aðeins varið eitt skot.

25. Staðan er 11:10 Akureyri í vil. Bergvin Gíslason og Magnús Gunnar skullu illa saman þegar Bergvin kastaði sér á etir boltanum inn í teig. Báðir lágu eftir en virðast ætla að jafna sig.

22. Staðan er 10:8 Akureyri í vil. Hörður Fannar var að skora af línunni strax eftir hornkast. Magnús Gunnar Erlendsson er kominn í mark Fram en hann hefur verið meiddur í síðustu leikjum. Sebastian hafði varið eitt skot en Sveinbjörn var að verja sitt fimmta hjá Akureyri.

18. Staðan er 8:7 Akureyri í vil. Heimir Örn fær að hvíla sig þessa stundina og stýrir Oddur því sóknarleik Akureyrar. Bjarni var að skora laglegt mark úr skyttustöðunni.

15. Staðan er 7:6 Akureyri í vil. Jóhann Gunnar var að skora úr vítakasti en Fram er án Einars Rafns Eiðssonar sem alla jafna tekur vítin. Sveinbjörn varði fyrsta víti Fram frá Ingimundi.

12. Staðan er 6:5 Akureyri í vil. Jóhann Gunnar var að stela boltanum í vörn Fram og Stefán Baldvin skoraði úr hraðaupphlaupi eftir að Akureyri hafði gert þrjú mörk í röð.

8. Staðan er 3:3. Bjarni var að jafna metin fyrir Akureyri úr hraðaupphlaupi eftir að Sveinbjörn varði. Sveinbjörn hafði áður varið vítakast frá Ingimundi. Guðmundur Hólmar skoraði fyrstu tvö mörk Akureyrar með glæsilegum hætti en þrumaði svo í markvinkilinn í þriðju tilraun sinni.

4. Staðan er 3:1 Fram í vil. Í sókninni hjá Akureyri byrja: Oddur, Guðmundur Hólmar, Heimir, Geir, Bjarni og Hörður á línunni. Framarar eru með 5+1 vörn með Stefán Baldvin fremstan. Þeir eru 3:1 yfir og er Sigurður Eggertsson kominn með tvö glæsileg mörk.

1. Leikurinn hafinn og það er heill hellingur af stemningu í húsinu. Nóg til að æra óstöðugan. Magnús Gunnar Erlendsson markvörður er á bekknum hjá Fram. Fram byrjar í sókn með eftirfarandi sóknarlínu, talið frá hægri: Elías, Jóhann, Sigfús, Sigurður, Stefán Baldvin og Ægir Hrafn á línunni. Akureyri byrjar með 5+1 vörn með Heimi Örn fremstan.

0. Halldór Jóhann Sigfússon er ekki með Frömurum í kvöld frekar en gegn Gróttu í síðustu umferð. Engin sjáanleg forföll eru hjá Akureyringum.

0. Dómarar í kvöld eru þeir Jón Karl Björnsson og Júlíus Sigurjónsson.

0. Fyrir umferðina í kvöld er staðan svona: 1. Haukar 27, 2. FH 25, 3. Akureyri 24, 4. HK 23, 5. Fram 23, 6. Valur 20. Fram sækir HK heim í lokaumferðinni en Akureyri fær Val í heimsókn.

0. Framarar eru með 15 menn skráða til leiks og það veltur á því hvernig Magnús Gunnar Erlendsson markvörður kemur undan upphitun hver þessara 15 verður ekki í hópnum þegar flautað verður til leiks.

Fram: Magnús Gunnar Erlendsson, Ástgeir Rúnar Sigmarsson, Sebastian Alexandersson, Einar Rafn Eiðsson, Sigfús Páll Sigfússon, Stefán Baldvin Stefánsson, Jóhann Karl Reynisson, Sigurður Eggertsson, Ingimundur Ingimundarson, Ægir Hrafn Jónsson, Jón Arnar Jónsson, Jóhann Gunnar Einarsson, Róbert Aron Hostert, Elías Bóasson.

Akureyri: Sveinbjörn Pétursson, Stefán Guðnason, Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Gíslason, Daníel Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert