Patrekur: Störfin fara vel saman

Patrekur Jóhannesson skrifaði í kvöld undir tveggja ára samning um þjálfun karlaliðs Vals í handknattleik. Hann segir það mikla áskorun fyrir sig að taka við liði Vals og markmiðið sé skýrt að Valur verði a.m.k. með í úrslitakeppninni á næsta ári en liðið hefur ekki unnið sér sæti í henni í fyrra og í ár.

Patrekur heldur áfram að þjálfa austurríska landsliðið í handknattleik sem hann tók við undir lok síðasta sumar. Hann hafi rætt við forráðamenn austurríska sambandsins um leið og Valsmenn hafi sýnt áhuga á að fá sig til starfs. „Þeir telja eins og ég að þessi tvö störf geti farið vel saman,“ segir Patrekur en forveri hans hjá Val, Óskar Bjarni Óskarsson, hefur verið aðstoðarmaður Guðmundar Þórðar Guðmundssonar síðustu fjögur ár.

Patrekur segir að hann leggi mikla áherslu á að Heimir Ríkarðsson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Vals, haldið áfram. „Ég hef óskað eftir því að Heimir haldi áfram,“ segir Patrekur.

Mögulegt er að einhverjar breytingar verði á leikmannahópi Vals fyrir næstu leiktíð. Patrekur segir þau mál ekki vera komin á hreint ennþá en hann vonist til að halda sem flestum af þeim sem nú eru í herbúðum Vals.

Patrekur hefur áður þjálfað hjá Stjörnunni og lék fyrir lið félagsins árum saman. Einnig spilaði hann með KA, þýsku liðunum GWD MInden og Tusem Essen og Bidasoa á Spáni. Patrekur þjálfaði TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni leiktíðna 2010 til 2011.

Frétt fyrr í dag um ráðningu Patreks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert