FH vann í háspennuleik

Mikið mun mæða á þessum mönnum í rimmu FH og …
Mikið mun mæða á þessum mönnum í rimmu FH og Akureyrar næstu daga; Ólafur Gústafsson, FH, Heimir Örn Árnason, Akureyri og Guðlaugur Arnarsson, Akureyri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

FH vann Akureyri í háspennuleik og framlengingu, 26:25, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Ragnar Jóhannsson tryggði FH sigurinn þegar 1,14 mínútur voru eftir.

Akureyri hélt boltanum eftir mark Ragnars en kom ekki skoti á markið en dæmd var leikleysa á norðanmenn þegar sex sekúndur voru eftir.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu á mbl.is.

Mörk FH: Ragnar Jóhannsson 6, Örn Ingi Bjarkason 6, Ólafur Gústafsson 5, Andri Berg Haraldsson 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Hjalti Þór Pálmason 2/1, Ari Magnús Þorgeirsson 1, Sigurður Ágústsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 20 (þaraf 8 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 12/6, Geir Guðmundsson 3, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Gíslason 2, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Oddur Gretarsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 7 (þaraf 2 til mótherja). Stefán Guðnason 6 (þaraf 1 til mótherja).
Utan vallar: 8 mínútur.
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson, mjög góðir fyrstu 50 mínúturnar, leyfðu mikið en héldu vel sinni línu. Misstu aðeins einbeitingu á síðustu mínútunum en náðu sér á strik á ný í framlengingunni.
Áhorfendur: 1.538.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Lið FH:  Daníel Freyr Andrésson, Pálmar Pétursson - Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Baldvin Þorsteinsson, Hjalti Þór Pálmason, Ólafur Gústafsson, Magnús Óli Magnússon, Örn Ingi Bjarkason, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannesson, Atli Rúnar Steinþórsson.
Þjálfarar: Einar Andri Einarsson og Kristján Arason.

Lið Akureyrar: Sveinbjörn Pétursson, Stefán Guðnason - Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Gíslason, Daníel Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.
Þjálfari: Atli Hilmarsson.

Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Eftirlitsmaður: Kjartan Steinbach.

70. Akureyringar halda boltanum allt þar til sex sekúndur eru eftir af leiknum með langri sókn en koma ekki almennilegu skoti á mark FH. Á endanum er dæmd leiktöf á Akureyarliðið og FH-ingar kasta boltanum yfir leikvöllinn endilangan og á meðan rennur leiktíminn út. Eins marks sigur í höfn hjá Íslandsmeisturunum.

68. Ragnar kemur FH yfir með marki af línu, 26:25, 1,14 mínútur eftir.

68. Daníel varði og FH hefur sókn. Tvær mínútur eftir, staðan jöfn, 25:25.

68. Bjarni kemst inn í sendingu FH-inga en Ragnar stöðvar hraðaupphlaup hans vel. Akureyri heldur boltanum og er i sókn, tvær mínútur og 40 sekúndur eftir.

67. Bjarni jafnar leikinn, 25:25, með sínu tólfta marki.

66. Sveinbjörn byrjar á að verja tvö skot í sömu sókninni, fyrst frá Ólafi og síðan Erni Inga í opnu færi. Akureyri fær boltann og getur jafnað metin.

65. Bjarni minnkar muninn í 25:24, rétt áður en fyrri hluti framlengingar eru úti.

64. Bergvin svarar fyrir Akureyri og jafnar. Örn Ingi kemur FH yfir, 24:23. Daníel varði skot í marki FH og Örn Ingi skorar aftur. Staðan er 25:23.

63. Bergvin kastar boltanum framhjá marki FH og Ólafur skorar um hæl fyrir FH, staðan er 23:22.

62. Hörður Fannar var að fá tveggja mínútna brottvísun. Það gæti reynst Akureyri erfitt. FH klúðrar boltanum auðveldlega og náði eki að færa sér liðsmuninn í nýt, amk ekki í þessari sókn.

61. Framlenging hafin. Guðmundur Hólmar kastar boltanum yfir mark FH úr fyrstu sókn leiksins. Hann var í fínu færi og átti að gera betur.

60. Venjulegum leiktíma lokið og staðan er jöfn, 22:22. Leikurinn verður framlengdur um 2x5 mínútur. Ólafur kastaði boltanum framhjá marki Akureyrar beint úr aukakasti úr þröngri stöðu eftir leiktíminn var úti.
Ragnar hefur skorað 5 mörk fyrir FH, Örn Ingi og Ólafur 4 hvor. Daníel hefur varið 17 skot í markinu.
Bjarni hefur skorað 10 mörk fyrir Akureyri og er markahæstur. Heimir og Geir hafa skorað 3 mörk hvor. Sveinbjörn hefur varið 5 skot og Stefán sex, en hann kom inn á 36. mínútu.

59,50. Bjarni var að jafna leikinn eftir að umdeilt vítakast var dæmt á FH, staðan er 22:22, og 10 sekúndur eftir. FH tekur leikhlé.

59. Staðan, 22:21, fyrir FH og Stefán markvörður Akureyrar var að verja. Akureyri fer í sókn, 55 sekúndur eftir.

57. Bjarni var að skora 20. mark Akureyrar eftir langa sókn. Forskot FH er aðeins eitt mark, 21:20, og spennan mikil.

53. Bjarni var að minnka muninn í 20:18. FH er tveimur mörkum yfir, en sem fyrr virðist allt geta gerst þótt heldur sé frumkvæðið heimamanna.

48. FH hefur náð þriggja marka forskot, 19:16, ekki síst fyrir góðan markvörslu Daníels í markinu. Hann hefur reynst norðamönnum erfiður. En það er mikið eftir af leiknum.

42. Baráttan hefur verið í algleymi síðustu mínútur. FH er marki yfir, 17:16, og bæði lið eru með manni í kælingu. Vart má á milli sjá þótt FH hafi náð um skeið tveggja marka forskoti, 17:15. Útlit fyrir spennu til síðustu mínútu.

35. Jafnt á öllum tölum. Bjarni var að jafna metin fyrir Akureyri, 15:15.

32. Guðmundur Hólmar skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks og kom Akureyri yfir, 12:13. Ragnar jafnaði stra fyrir FH, staðan er 13:13.

30. Hálfleikur í Kaplakrika og staðan er jöfn, 12:12. Akureyri skoraði fimm mörk í röð og jafnaði leikinn í 11:11, eftir 28 og hálfa mínútu eftir að hafa verið fimm mörkum undir, 11:6, þegar tíu mínútur voru til hálfleiks. Nú er leikurinn orðinn jafn og spennandi en fyrstu 20 mínúturnar var ekki margt sem benti til þess að svo yrði.
Örn Ingi hefur skorað 3 mörk fyrir FH og Andri, Hjalti og Ragnar 2 hver. Daníel hefur varið 9 skot í markinu.
Bjarni og Heimir hafa skorað þrjú mörk hvor fyrir Akureyri. Sveinbjörn hefur varið 5 skot, öll á stuttum kafla í leiknum.

27. FH-ingar taka leikhlé enda er forskot þeirra komið niður í eitt mark, 11:10. Sóknarleikur Hafnfirðingar hefur ekki borið ávöxt síðustu mínútu, skot verið óyfirveguð og þá hefur Sveinbjörn varið ágætlega.

21. Akureyringar hafa verið að bíta frá sér síðustu mínútur eftir að jafnt varð í liðum, staðan er nú 11:8, eftir að Sveinbjörn hefur varið vel og norðanmenn fengið mörk eftir hraðar sóknir.

16. Atli tekur leikhlé. Staðan er 10:5, fyrir FH. Akureyri er tveimur mönnum færri í hálfa mínútu til viðbótar en engu að síður hefur liðið átt undir högg að sækja frá upphafi. FH liðið virðist ákveðnara, jafnt í vörn sem sókn.

15. Lítið um varnarleik síðustu mínútur. FH heldur forskoti sínu en það er nú þrjú mörk, 8:5. Ekki vænkast hagur Akureyringa næstu mínútur því verið var að reka Bjarna af leikvelli í tvær mínútur. Og meðan þetta er skrifað fer Hörður Flóki sömu leið. Hinn dagfarsprúði þjálfari Akureyringa, Atli Hilmarsson, sendi dómurunum kaldar kveðjur.

11. FH-ingar virðast vera að ná tökum á leiknum. Vörn þeirra er traust og sóknarleikurinn fumlaus. Staðan er 6:3, fyrir FH, sem nú hefur sókn og getur náð fjögurra marka forystu.

9. Ragnar var að koma FH tveimur mörkum yfir, 4:2.

7. Örn Ingi og Heimir hafa skorað sitt markið hvor, staðan er 3:2, fyrir FH.

2. Örn Ingi kom FH í 2:0 áður en Heimir Örn minnkaði muninn í 2:1.

1. Baldvin Þorsteinsson kom FH yfir úr fyrstu sókn leiksins, 1:0.

0. Nú eru um fimm mínútur þangað til leikurinn hefst. Áhorfendur hafa oft verið fleiri í Kaplakrika. Nú eru þeir vel innan við eitt þúsund.

Þessi lið mættust í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn fyrir ári síðan og þá hafði FH betur, vann þrjá leiki og en Akureyri einn.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.  Liðin mætast á ný í íþróttahöllinni á Akureyri á föstudaginn og á sunnudag á ný í Kaplakrika.

FH og Akureyri mættust þrisvar í deildinni í vetur og einu sinni í Eimskipsbikarnum. Úrslit þeirra eru sem hér segir:

Akureyri, 29. september, Akureyri - FH 20:24
Kaplakriki, 23. nóvember, FH - Akureyri 29:29
Akureyri, 19. mars, Akureyri - FH 30:26

13. nóvember, Kaplakriki, FH - Akureyri 34:21, bikarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert