Frábær lokakafli tryggði FH sigur

Úr leik FH og Akureyrar í dag.
Úr leik FH og Akureyrar í dag.

FH vann Akureyrri 22:17 í þriðja leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handknatteik. Þeir leiða þar með einvígið 2:1 en liðin hafa bæði unnið á heimavelli. Staðan í hálfleik var 10:9 en heimamenn reyndust sterkari í þeim síðari.

Ótrúlegur lokakafli leiksins þar sem FH-ingar voru oft á tíðum einum manni færri var frábærlega spilaður af þeirra hálfu en að sama skapi skelfilega hjá gestunum sem gerðu sig sekir um hver mistökin á fætur öðrum.

Markahæstur hjá FH voru Ari Magnús Þorgeirsson og Hjalti Pálmason, báðir með fimm mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 15 skot í markinu. Hjá Akureyri voru þrír með fjögur mörk markahæstir, Geir Guðmundsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Guðmundur Hólmar Helgason. Sveinbjörn Pétursson varði 20 skot í markinu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu.

54. Hver mistökin á fætur öðrum einkenna sóknarleik Akureyrar, þeir missa boltann, fá dæmd á sig skref, tvígrip og þar fram eftir götunum. Á meðan nýta heimamenn sínar sóknir og eru með þriggja marka forskot 18:15 þegar sex og hálf mínúta er eftir og Atli tekur leikhlé.

50. Gestirnir ná ekki að nýta sér það þegar þeir eru einum manni fleiri og FH-ingar ná í staðinn tveggja marka forskoti 15:13 eftir gott hraðaupphlaup hjá Ara Magnúsi.

43. Ólafur Gústafsson var að fá sína þriðju brottvísun hjá FH og er þar með kominn með rautt spjald og tekur ekki meira þátt í þessum leik. Staðan er 13:13 og Akureyri á kost á því að komast yfir einum manni fleiri.

39. Gestirnir eru búnir að jafna metin 12:12 eftir að hafa verið þremur mörkum undir. Flottur kafli hjá Akureyri en að sama skapi finna leikmenn FH engar glufur á vörn Akureyrar.

34. Heimamenn skora fyrstu tvö mörkin og koma sér í þægilega stöðu í byrjun seinni hálfleiks 12:9.

31. Þá er seinni hálfleikur hafinn, FH byrjar í sókn og manni fleiri í um 50 sekúndur.

30. Hálfleikur - Það voru heimamenn sem reyndust sterkari á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og skoruðu þeir þrjú mörk gegn einu marki Akureyrar, staðan því 10:9. Það er ekki mikið skorað enda varnir liðanna gríðarlega sterkar og þar fyrir aftan eru markverðir liðanna að taka þá bolta sem þeir eiga að taka og jafnvel meira til. Sjö leikmenn FH hafa skorað mörkin 10, Andri Berg og Ari Magnús eru með tvö aðrir eitt. Hjá Akureyri dreifist markaskorun minna en Geir og Guðmundur Hólmar eru báðir með þrjú mörk. Sveinbjörn er með 10 skot varin hjá Akureyri en Daníel Freyr átta hjá heimamönnum.

26. Ragnar Jóhannsson er aftur kominn inn á með góðar umbúðir yfir skurðinn rétt fyrir ofan augað. Staðan er hinsvegar 7:8 gestunum í vil en Bjarni fékk tækifæri úr víti til að auka muninn í tvö mörk. Honum brást hinsvegar bogalistin en boltinn fór í báðar stangirnar og þaðan út. Þjálfarar FH taka leikhlé og freista þess að ná marki og jafna metin.

21. Ólafur Gústafsson var að fá sína aðra brottvísun í leiknum hjá FH og það er áhyggjuefni. Staðan er 6:7 en varnir liðanna eru gríðarlega sterkar og flest skotin úr erfiðum færum.

15. Það er jafnt á flestum tölum en Daníel er farinn að verja í marki FH og kominn með fjögur skot. Hjá Akureyri eru frændurnir Geir og Guðmundur Hólmar búnir að skora öll mörkin en þetta dreifist betur hjá FH. Staðan er 5:5 en verið er að huga að meiðslum Ragnars hjá FH sem virtist fá skurð sem þeim gengur illa að loka, læknaliði FH.

10. Sveinbjörn fer vel af stað í marki Akureyar og er kominn með fjögur skot varin. Staðan er 3:4, gestunum í vil.

4. Þetta hefst allt með látum, bæði lið búin að skora tvö mörk, og einn leikmaður úr hvoru liði kominn með brottvísun. Geir gerði bæði mörk Akureyrar og Ólafur og Ari Magnús mörk FH. Staðan 2:2.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Dómarar í dag eru þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson. Eftirlitsmaður er Guðjón L. Sigurðsson.

0. Framlengja þurfti leikinn þegar liðin mættust síðast hér í Kaplakrika. Þá var staðan jöfn eftir venjulegan leiktíma 22:22 en í framlengingunni reyndust heimamenn sterkari og höfðu eins marks sigur 26:25. Þegar liðin mættust á Akureyri á föstudaginn jafnaði Akureyri metin í rimmunni 1:1 með sigri 25:18.

0. FH hafnaði í 2. sæti deildarinnar og Akureyri í því þriðja en einu stigi munaði á liðunum. FH skoraði 555 mörk og fékk á sig 514 í deildinni en Akureyri skoraði 573 mörk og fékk á sig 525.

Lið FH: Daníel Freyr Andrésson (m), Pálmar Pétursson (m), Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Baldvin Þorsteinsson, Hjalti Þór Pálmason, Hjörtur Hinriksson, Ólafur Gústafsson, Örn Ingi Bjarkason, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson, Atli Rúnar Steinþórsson, Magnús Óli Magnússon.
Þjálfarar FH eru Einar Andri Einarsson og Kristján Arason.

Lið Akureyrar: Sveinbjörn Pétursson (m), Stefán Guðnason (m) Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Andri Snær Stefánsson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Gretarsson, Bergvin Þór Gíslason, Daníel Örn Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.
Þjálfari Akureyrar er Atli Hilmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert