FH leikur til úrslita við HK

Daníel Örn Einarsson leikmaður Akureyrar og Ólafur Gústafsson.
Daníel Örn Einarsson leikmaður Akureyrar og Ólafur Gústafsson. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

FH vann Akureyri, 28:25,  í fjórða undanúrslitaleik liðanna úrvalsdeildar karla í handknattleik, N1-deildinni á Akureyri í kvöld. FH leikur þar með til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik annað árið í röð en Hafnfirðingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar.

FH-ingar náðu fimm marka forskoti í fyrri hálfleik en Akureyri náði að minnka muninn í tvö mörk fyrir hálfleik, 14:12. FH hafði frumkvæðið allan síðari hálfleikinn og náði á ný fimm marka forskoti um tíma. Akureyrarliðið náði á ný muninum niður í eitt mark en lengra komst það ekki. Leikmenn liðsins gerðu sig seka um einföld mistök í sóknarleiknum og það varð liðinu að falli þegar upp var staðið auk þess sem skyttur FH-liðsins voru Akureyringum erfiðar.

Hörður Fannar Sigþórsson skoraði sjö mörk fyrir Akureyri og var markahæstur. Ragnar Jóhannsson og Ólafur Gústafsson skoruðu átta mörk hvor fyrir FH.

Úrslitarimma FH og HK um Íslandsmeistaratitilinn hefst á þriðjudaginn. Fyrsti leikurinn verður á heimavleli FH-inga í Kaplakrika.

Leikurinn í kvöld var kveðjuleikur Atla Hilmarssonar með Akureyrarliðið.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Akureyri: Sveinbjörn Pétursson, Stefán Guðnason - Geir Guðmundsson, Bjarni Fritzson, Andri Snær Stefánsson, Ásgeir Jónsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðlaugur Arnarsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Heimir Örn Árnason, Oddur Grétarsson, Bergvin Þór Gíslason, Daníel Örn Einarsson, Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson.
Þjálfari: Atli Hilmarsson.

FH: Daníel Freyr Andrésson, Pálmar Pétursson - Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Baldvin Þorsteinsson, Hjalti Þór Pálmason, Hjörtur Hinriksson, Ólafur Gústafsson, Örn Ingi Bjarkason, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson, Magnús Óli Magnússon, Atli Rúnar Steinþórsson.
Þjálfarar: Einar Andri Einarsson og Kristján Arason.

Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson. Eftirlitsmaður er Kristján Halldórsson.

Akureyri 25:28 FH opna loka
60. mín. Akureyri tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert