Róbert Gunnarsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum þegar lið hans París Handball rúllaði yfir meistaralið Montpellier, 38:24, í París í dag. Leikurinn var sögulegur af mörgum ástæðum.
Leikurinn er án efa stærsti handboltaleikur sem farið hefur fram í 1. deildinni í Frakklandi frá upphafi. Þá eru úrslit hans eru einnig söguleg þar sem Montpellier hefur verið í sérflokki í frönskum handknattleik síðustu fimmtán árin. Þar fyrir utan voru nokkrir leikmenn handteknir við lok leiksins af frönsku lögreglunni, þar á meðal stjörnuleikmaðurinn Nikola Karabatic.
París gjörsigraði frönsku meistarana
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik. Staðan var 5:4 eftir sex mínútur og 6:6 eftir tólf. Íslenski landsliðsmaðurinn Róbert Gunnarsson átti í vandræðum með sterkan varnarleik Montpellier-manna og fékk lítið pláss á línunni.
Ásgeir Örn Hallgrímsson fékk lítið að spreyta sig í sókninni og komst því ekki á blað fyrir utan það að næla sér einu sinni í tveggja mínútna brottvísun. Stórskyttan Nikola Karabatic og línumaðurinn Tej frá Túnis fóru fyrir Montpellier-liðinu á þessum kafla sem hafði tveggja marka forystu eftir sautján mínútna leik.
Þá vaknaði París og besti leikmaður heims, Mikkel Hansen, fór á kostum en hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfeik. Heimamenn í París höfðu tveggja marka forrystu í hálfeik, 14:12.
Seinni hálfleikur byrjaði á sama hátt og enn var allt í járnum. Hins vegar opnuðust allar flóðgáttir á fertugustu mínútu þar sem leikmenn París keyrðu frönsku meistarana gjörsamlega í kaf. Heimamenn skoruðu sextán mörk á fimmtán mínútna kafla á meðan gestirnir náðu aðeins að skora sjö. Leikur meistaranna gjörsamlega hrundi og París var fremri á öllum sviðum leiksins. Í leikslok var ljóst að Montpellier skoraði eingöngu 11 mörk í síðari hálfleik á móti 23 mörkum heimamanna.
Mikkel Hansen, besti handknattleiksmaður heims, stóð undir nafni í dag og var markahæstur í leiknum með ellefu mörk úr fimmtán skotum. Króatíski landsliðsmaðurinn Marko Kopljar kom næstur í liði París með tíu mörk og Samuel Honrubia skoraði sex. Róbert Gunnarsson skoraði eins og áður sagði þrjú mörk en Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað yfir markaskorara að þessu sinni.
Slóvenski hornamaðurinn Dragan Gajic var markahæstur í liði Montpellier með átta mörk en næstir komu Karabatic-bræðurnir, William Accambray og Issam Tej með þrjú mörk hver.
Enginn veit hvort leikmenn Montpellier eru þreyttir eftir að hafa spilað í meistaradeildinni um helgina eða hvort allt fjölmiðlafárið síðustu daga í kringum meint veðmálasvik hafi sett strik í reikninginn. Eitt er ljóst að kaflaskipti hafa orðið í frönskum handknattleik og að „blái refurinn“ er særður.
Það voru fáir stuðningsmenn sem hvöttu leikmenn Montpellier til dáða í leiknum í dag því stuðningslið þeirra fékk einfaldlega ekki sæti í Pierre de Coubertin leikvangnum. Reglur handknattleiksdeildarinnar kveða á um að minnsta kosti 10% sætanna verða að vera í boði fyrir stuðningsmenn útiliðsins. Forráðarmenn París báðust afsökunar á mistökunum og sögðust ekki hafa áttað sig á þessu fyrr en allt of seint, þegar það var orðið uppselt á leikinn.
Sjö leikmenn handteknir ásamt skyldmennum
Að minnsta kosti sjö leikmenn ásamt nokkrum skyldmennum voru handteknir af frönsku lögreglunni og færðir til yfirheyrslna strax að leik loknum. Fjöldinn allur af lögreglumönnum tók þátt í aðgerðinni en þeir komu í tíu ómerktum lögreglubílum og stilltu sér upp um leið og leikurinn kláraðist. Stórstjarnan Nikola Karabatic var handtekinn ásamt bróður sínum, Luka Karabatic.
Að auki var landsliðsmaðurinn Samuel Honrubia tekinn höndum en hann skipti yfir í lið Parísar í sumar eftir ellefu ára dvöl hjá Montpellier. Þá var kærasta Luka Karabatic einnig færð niður á lögreglustöð en lögreglan handtók hana í morgun á heimili Luka.
Eins og fram hefur komið eru leikmennirnir grunaðir um að hafa átt þátt í því að Montpellier tapaði óvænt fyrir Cesson í lok frönsku 1. deildarkeppninnar síðasta vor. Talið er að margir vandamenn leikmannanna og fleiri tengdir Montpellier hafi þá grætt fúlgur fjár á því að veðja á sigur Cesson í leiknum.
Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franska handboltann fyrir mbl.is og Morgunblaðið.