Níu leikmenn handteknir

Nikola Karabatic umkringdur ljósmyndurum í Pierre de Coubertin höllinni í …
Nikola Karabatic umkringdur ljósmyndurum í Pierre de Coubertin höllinni í París í dag. AFP

Samkvæmt ónefndum heimildarmanni innan frönsku lögreglunnar voru alls sautján manns handteknir í dag í sambandi við meint veðmálasvindl í franska handboltanum. Þar af eru níu leikmenn.

Þeir sem voru handteknir og færðir til yfirheyrslu í dag voru: sjö leikmenn frá Montpellier ásamt sjúkraþjálfara liðsins, tveir leikmenn frá París Handball og kærasta Luka  Karabatic.   Ekki er vitað hverjir hinir sex aðilarnir eru á þessu stigi málsins. 

Talið er að eftirfarandi leikmenn frá Montpellier hafi veirð handteknir:  Nikola Karabatic,  Luka Karabatic, Wissem Hmam, Vid Kavticnik, Mickaël Robin, Dragan Gajic og Primoz Prost. Eftirfarandi leikmenn voru handteknir úr lið París en þeir léku báðir með Montpellier á síðasta ári: Mladen Bojinovic og Samuel Honrubia. Þá var Yann Montiège, sjúkraþjálfari Montpellier, einnig tekinn höndum ásamt kærustu Luka Karabatic, Jeny Priez, en hún er þáttarstjórnandi á NRJ.

Óeinkennisklæddir lögreglumenn

Að minnsta kosti fimmtán óeinkennisklæddir lögreglumenn mættu á Stade Pierre-de-Coubertin-leikvanginn seinnipartinn í dag á að minnsta kosti tíu ómerktum bílum.  Vitni sáu lögreglumennina sýna lögregluskilríki til að komast inn á leikvanginn. Leikmenn voru leiddir út í bílana stuttu eftir leikslok.

Myndir frá frönsku sjónvarpsstöðinni Canal Plus staðfestu stuttu síðar að sömu bílar keyrðu inn á lögreglustöð í Nanterre í úthverfi Parísar. Þar er innanríkisráðuneytið með sérstaka deild sem tekur á brotum tengdum veðmálum.

Forseti Montpellier í hópi stefnanda?

Remy Levy, forseti Montpellier, sagði við Reuters að hann „gæti hvorki staðfest né neitað fregnum varðandi málið þar sem hann væri sjálfur stefnandi í málinu til að verja heiður klúbbsins.“ Það er erfitt að skilja hvað hann á við með þessum orðum en fjölmiðlamenn ytra telja þetta vera góða leið fyrir klúbbinn til að fá aðgang að viðkvæmum málskjölum.   

Saksóknarinn í Montpellier mun halda blaðamannafund um málið á morgun. Málið er búið að vera til rannsóknar hjá opinberum aðilum frá 1. ágúst síðastliðnum.  Talið er að lögreglan sé búin að vakta bæði síma og bankareikninga hjá þeim aðilum sem liggja undir grun í málinu. 

Stjörnuhrap

Ljóst er að þetta er gríðarlegt áfall fyrir franskan handbolta og einn dáðasta son þjóðarinnar, Nikola Karabatic. Nikola er 28 ára gamall og er jafnan talinn einn besti handknattleiksmaður allra tíma. Hann hefur unnið alla stærstu titla sem eru í boði, þar á meðal tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikum, ásamt því að hafa verið kosinn besti handknattleiksmaður veraldar.

Franska veðmálafyrirtækið BetClick sleit á dögunum samstarfi sínu við Nikola Karabatic en hann hefur komið fram í auglýsingum hjá þeim um árabil. Afstaða fyrirtækisins er eftirfarandi: „hvort sem hann er saklaus eða ekki þá hefur hann verið orðaður við veðmálasvindl og það samrýmist ekki okkar ímynd. Það er því betra fyrir okkur og hann að við slítum okkar samstarfi, að minnsta kosti tímabundið.“

Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franska handboltann fyrir mbl.is og Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert