Chambéry við hlið Parísar á toppnum

Bertrand Gille og félagar í Chambéry eru á toppnum í …
Bertrand Gille og félagar í Chambéry eru á toppnum í Frakklandi. AFP

Það hefur varla farið fram hjá neinum handboltaáhugamanni að þriðju umferð í frönsku 1. deildinni í handbolta lauk í gær með stórleik París og Montpellier. Þar rúlluðu heimamenn í París yfir frönsku meistarana 38:24. Þrátt fyrir öll lætin í kringum þann leik þá fóru líka fram aðrir leikir í franska handboltanum um helgina.

Tap hjá Gunnari Steini

Gunnar Steinn Jónsson og félagar í Nantes töpuðu fyrir sterku liði Dunkerque, 25:28, á útivelli. Nantes byrjaði leikinn af miklum krafti en náði ekki að nýta sér það nægilega vel því heimamenn höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 14:11. Nantes neitaði hinsvegar að gefast upp og jafnaði metin í 22:22 þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Í framhaldinu lokaði markvörður Dunkerque gjörsamlega rammanum og tryggði sínum mönnum dýrmæt stig, en liðið er taplaust eftir þrjár fyrstu umferðirnar.

Vincent Gérard átti stórleik í markinu hjá Dunkerque og varði hvorki fleiri né færri en 27 skot í leiknum. Þá skoraði Julian Emonet 9 mörk fyrir heimamenn. Hjá gestunum var spænski landsliðsmaðurinn Valero Rivera Folch í sérflokki en hann skoraði tólf mörk í leiknum. Gunnar Steinn Jónsson var í leikmannahópi Nantes en komst ekki á blað að þessu sinni.

Chambéry blandar sér í titilbaráttuna

Chambéry lagði Ivry að velli, 24:23, á heimavelli sínum í fyrsta leik þriðju umferðar síðastliðinn fimmtudag. Sterkur varnarleikur er aðalsmerki heimamanna eins og lokatölur leiksins gefa til kynna. Heimamenn byrjuðu leikinn gríðarlega vel og höfðu til að mynda sex marka forystu um miðbik fyrri hálfeiks, 7:1. Ivry tókst hinsvegar með mikilli baráttu að  minnka muninn niður í eitt mark rétt áður en fyrri hálfleikur kláraðist, hálfleikstölur 11:10.

Það var svo jafnt á öllum tölum í síðari hálfleik en Chambéry tryggði sér sigurinn með því að skora síðustu þrjú mörk leiksins. Gille bræðurnir og liðsfélagar þeirra í Chambéry hafa unnið alla leiki sína á mótinu til þessa og verma því toppsæti deildarinnar ásamt sterku liði París sem hefur reyndar töluvert betri markatölu.

Bingo í stuði

Leikmenn Tremblay ráku af sér slyðruorðið eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjum tímabilsins með því að leggja Toulouse af velli, 28:25. Yfirburðir heimamanna voru augljósir að þessu sinni og sigurinn á sterku liði Toulouse var aldrei í hættu. Tremblay leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 15:10.

Þeir spiluðu frábæran sóknarleik þar sem liðsheildin fékk að njóta sín en alls skoruðu níu leikmenn mörk fyrir Tremblay í leiknum. Franski landsliðsmaðrinn Arnaud Bingo var þeirra markahæstur með átta. Vörnin var einnig góð en Toulouse tapaði boltanum oft klaufalega í sókninni Franski landsliðsfyrirliðinn Jerome Ferandez fór fyrir sínum mönnum og skoraði 11 mörk en það dugði ekki til.

Sélestat og Cesson skildu jöfn að velli 23:23 en Cesson hefur verið mikið í fréttum í vikunni vegna meint veðmálasvindls hjá leikmönnum Montpellier.  Leikurinn var æsispennandi og sveiflukenndur og því má segja að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða fyrir báða aðila. Níu leikmenn skoruðu hjá Cesson en Sélestat treysti mikið á örvhentu skyttuna François-Marie Jordan sem skoraði níu mörk í leiknum. 
 
Erfitt hjá nýliðum

Það var nágrannaslagur í Aix-en-Provence í gær þegar heimamenn í Pays d’Aix töpuðu naumlega fyrir Saint-Raphaël, 27:29. Nýliðarnir í Pays d’Aix byrjuðu mun betur í leiknum og höfðu þriggja til fjögurra marka um miðbik fyrri hálfleiks, 8:4 . Saint-Raphaël náði hinsvegar að jafna rétt áður hálfleikurinn skall á, 13:13. Jafnt var á öllum tölum í síðari hálfleik en  Saint-Raphaël náði yfirhöndinni rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.

Geoffroy Krantz fór fyrir sigurliðinu og skoraði sjö mörk. Nýliðarnir í Pays d’Aix halda áfram að spila vel en þeir eiga í erfiðleikum með að klára leikina og innbyrða sigur. Þeir töpuðu naumlega fyrir París í síðast umferð og misstu niður unninn leik í jafntefli í fyrstu umferð.
 
Hinir nýliðarnar í deildinni, Billère, urðu einnig að sætta sig við tap á heimavelli  á móti Créteil, 24:26, þrátt fyrir góða frammistöðu. Nýliðarnir réðu lögum og lofum í fyrri hluta leiksins og höfðu þriggja marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 16:13. Heimamenn náðu hinsvegar ekki að fylgja eftir góðri byrjun og eru því enn stigalausir á botni deildarinnar.

Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franska handboltann fyrir mbl.is og Morgunblaðið.

Róbert Gunnarsson og félagar í París Handball fagna stórsigrinum á …
Róbert Gunnarsson og félagar í París Handball fagna stórsigrinum á Montpellier í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert