Karabatic játar að hafa veðjað

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic hefur viðurkennt að hafa lagt undir peninga á veðmálasíðu að lið hans, Montpellier, tapaði síðasta leik sínum í frönsku 1. deildinni í handknattleik á liðinu vori. Hann neitar því hinsvegar að  liðið hafi tapað leiknum með vilja til þess að hann og fleiri leikmenn myndu hagnast mikið á veðmálinu.

Þetta hefur L'Equipe eftir umboðsmanni Karabatic-bræðranna, Eric Dupond-Moretti, en Luka bróðir Nikola er einn þeirra sem einnig eru flæktir í málið svo og kærasta Luka.

Bræðurnir voru handteknir um helgina ásamt hópi fólks í tengslum við rannsókn á málsins sem vakið hefur mikla athygli enda Nikola Karabatic einn allra fremsti handknattleiksmaður heims. Montpellier hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag.

Leikurinn sem er til rannsóknar er viðureign Montpellier og Cesson Sevigny sem síðarnefnda liðið vann örugglega í lokaumferð frönsku 1. deildarinnar í vor. Montpellier hafi þá þegar tryggt sér franska meistaratitilinn og úrslitin skiptu liðið engu máli. Athygli vakti hinsvegar að mikið var veðjað á að Montpellier tapaði leiknum, m.a. af fólki nátengdu liðinu og leikmönnum þess. Þar af leiðandi var hafin rannsókn sem nú hefur leitt til handtöku margra fyrrverandi og núverandi leikmanna Montpellier og skyldmenna þeirra. Talið er að hagnaður þessa hóps sé jafnvirði á fjórða tugs milljóna íslenskra króna.

Nikola Karabatic t.v. í fylgd lögreglu eftir að hafa verið …
Nikola Karabatic t.v. í fylgd lögreglu eftir að hafa verið handtekinn um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert