Karabatic rýfur þögnina

Nikola Karabatic sest inní lögreglubifreið eftir leikinn við París Handball …
Nikola Karabatic sest inní lögreglubifreið eftir leikinn við París Handball um helgina. AFP

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic tjáði sig loksins um meint veðmálasvindl á facebook-síðu sinni nú fyrir stundu. Hann hefur hingað til algjörlega haldið sig til hlés í málinu en hefur loksins rofið þagnarmúrinn til að hreinsa loftið.

Yfirlýsing hans er þannig:

„Ég hef verið hljóður hingað til. Ég skulda ykkur þessi orð. Veðjaði ég? Nei, ég veðjaði ekki. Veðjaði kærastan mín? Já. Sagði hún mér frá því? Já. Af hverju veðjaði hún? Hún hefur fylgst með liðinu í tvö ár og þekkti stöðuna sem liðið var í. Við vorum nú þegar orðnir meistarar, fimm mikilvægir leikmenn voru meiddir og við höfðum áður tapað fyrir Nimes, Cesson var að berjast fyrir lífi sínu. Við þessar aðstæður var lið okkar sært.

Varðandi mjög svo alvarlegar ásakanir um meint svindl þá láta þær mér líða mjög illa. Ásakanir um svindl og að ég hafi haft óæskileg áhrif á niðurstöðu leiksins eru eingöngu til að búa til fjölmiðlafóður og það er gjörsamlega ólíðandi! Sakið mig og litla bróður minn um svindl þegar við höfum ekki einu sinni spilað leikinn og komið fram við okkur eins og ótínda glæpamenn…..ég á ekki til orð….

Ég hef helgað líf mitt handbolta frá því að ég fæddist. Ég berst fyrir íþróttinni minni og að vera í þessari aðstöðu er martröð…. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir stuðning ykkar sem huggar mig á þessum erfiðu tímum. NIKO“

Kærasta játar

Kærasta Nikola Karabatic, Geraldine Pillet, hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið. Kærasta Luka Karabatic, Jeny Priez, viðurkenndi hinsvegar í gær að hafa veðjað á leikinn. Hún tók fram að hún hefði fengið fyrirmæli frá Luka og notað hans peninga til að veðja.  Jeny var leyst frá störfum eftir að málið kom upp en hún er þáttastjórnandi á frönsku sjónvarpsstöðinni NRJ.

Að sögn saksóknara Montpellier var heildarupphæð veðmála á leikinn 87.880 evrur (14 milljónir króna) en það er margfalt hærri upphæð heldur en reiknað var með fyrir þennan tiltekna leik.  Heildarhagnaður af veðmálunum var 252.880 evrur (40,3 milljónir króna). Flest veðmálin voru lögð fram á sama klukkutímanum og 99,94% veðmálanna voru á þá leið að Montpellier myndi vera undir í leiknum.

Ímyndin í rúst

Franskir fjölmiðlar hafa farið mikinn í málinu síðustu daga enda var Nikola einn dáðasti íþróttamaður þjóðarinnar og mikil fyrirmynd áður en þetta mál kom upp. Styrktaraðilar eru byrjaðir að segja upp samningum við kappann og auglýsingar með honum hafa smátt og smátt horfið af sjónarsviðinu síðustu daga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig stórir styrktaraðilar á borð við Adidas munu bregðast við fregnunum á næstu dögum.

Umskiptin á ímynd leikmannsins eru alveg hreint ótrúleg. Þetta sést vel á því að einn franskur fjölmiðill var byrjaður að tala um hann sem „leikmann fæddan í Serbíu“ í umfjöllun sinni um málið í gær. Þetta er ný nálgun á umfjöllun um leikmanninn sem var áður talinn vera einn dáðasti sonur frönsku þjóðarinnar. Hann fæddist engu að síður í Serbíu og flutti til Frakklands ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var þriggja ára. Faðir hans var króatískur og móðir hans frá Serbíu.

Tvíþættur refsirammi

Refsiramminn er í raun tvíþættur í málinu og getur enn farið á báða vegu. Verði þeir annarsvegar fundnir sekir um að hafa „eingöngu“ veðjað á leikinn gætu þeir sloppið með sex leikja bann og sekt upp á 15.000 evrur (2,4 milljónir króna). Hinsvegar ef allt fer á versta veg og rannsóknin sýnir fram á að leikmennirnir veðjuðu og töpuðu leiknum viljandi er heimilt að dæma þá til allt að fimm ára fangelsisvistar og 75.000 evru sekt (12 milljónir króna).

Lögmaður Karabatic, Eric Dupont-Moretti, segir málið eingöngu snúast um veðmál en neitar staðfastlega að bræðurnir hafi komið nálægt því að hafa haft óæskileg áhrif á sjálfan leikinn. Þá gagnrýnir hann harkalega hversu miklu af viðkvæmum upplýsingum sé lekið út í fjölmiðla frá lögreglu og saksóknara Montpellier.

Þar fyrir utan hefur forseti Montpellier talað um að leikmönnunum verði refsað innan klúbbsins ef þeir verða fundnir sekir og handknattleikssambandið getur einnig gripið til aðgerða gegn klúbbnum. Saksóknarinn sagði rannsóknina nú eingöngu beinast að leikmönnum og aðilum þeim tengdum þar sem forseti og þjálfarar liðanna hafa verið hreinsaðir af öllum grun.

Næstu skref

Karabatic-bræðurnir voru leiddir fyrir dómara í dag (þriðjudag) en þrátt fyrir það er enn ekki komin niðurstaða í málið. Rannsóknin mun því væntanlega halda áfram næstu daga. Framtíð Karabatic hjá franska landsliðinu er óráðin en landsliðsþjálfari franska landsliðsins vildi ekki gefa neitt út fyrr en niðurstaða liggur fyrir í málinu. Það verður engu að síður fróðlegt að fylgjast með leik Montpellier gegn Toulouse í frönsku 1. deildinni á morgun en óvíst er hvaða leikmenn koma til með að spila leikinn.

Facebook-síðu Nikola Karabatic má nálgast hér:  http://www.facebook.com/pages/NIKOLA-KARABATIC/339952045465.

Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franska handboltann fyrir Morgunblaðið og mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka